137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[11:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara og lögum um rannsókna á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Embætti sérstaks saksóknara gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki í því uppgjöri sem nú er hafið vegna bankahrunsins. Rannsókn á því hvort refsiverð háttsemi hafi átt sér stað í tengslum við hrun íslensku bankanna er nauðsynlegur liður í endurreisn íslensks efnahagslífs. Markmið þessa frumvarps er að efla embætti hins sérstaka saksóknara svo það verði betur í stakk búið til að sinna lögmætu hlutverki sínu við slíka rannsókn og eftir atvikum saksókn.

Ég tel rétt að rifja upp að embættið hefur þegar verið eflt. Það var gert með ákvörðun ríkisstjórnarinnar 27. mars sl. um að stórauka fjárveitingar til embættisins úr 76 millj. kr. í 206 millj. kr. á ársgrundvelli. Var þetta gert í kjölfar ábendinga frá Evu Joly sem er ráðgjafi hins sérstaka saksóknara sem taldi að um 20 manns þyrftu að starfa hjá hinu nýja embætti svo það gæti starfrækt hlutverk sitt. Enn hafa komið ábendingar frá fyrrnefndum ráðgjafa hins sérstaka saksóknara um að efla þurfi rannsóknina enn frekar og tel ég afar brýnt að hlýða vel á þær ábendingar. Því er í frumvarpinu lagt til að ráðherra skipi til viðbótar við hinn sérstaka saksóknara þrjá saksóknara við embættið.

Lagt er til að saksóknararnir hafi sjálfstætt ákæruvald og taki þannig sjálfir ákvörðun um hvort ákært skuli í þeim málum sem þeim hefur verið falið að rannsaka en lúti ekki fyrirmælum hins sérstaka saksóknara í þeim efnum. Jafnframt hafi þeir lögregluvald eins og aðrir starfsmenn hins sérstaka saksóknara. Hinn sérstaki saksóknari skal hins vegar skipta með saksóknurum verkum og fela þeim rannsókn, stjórn og flutning mála. Er þetta skipulag á embættinu sem hér er gert ráð fyrir með nokkrum sjálfstæðum saksóknurum nýmæli hér á landi. Skipulagið er að norskri fyrirmynd því að mjög hefur verið litið til norska embættisins Økokrim. Økokrim hefur með höndum rannsóknir á efnahagsbrotum ásamt saksókn. Þó fer því fjarri að þessi hugmynd sé að öllu leyti ný hérlendis því að fyrrverandi ríkissaksóknari, Bogi Nilsson, setti á sínum tíma fram hugmyndir um áþekkt fyrirkomulag þegar rætt var um nýtt embætti héraðssaksóknara í tengslum við endurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála. Því má segja að hugmyndir fyrrverandi ríkissaksóknara hafi hér fengið endurnýjun lífdaga.

Þá er í frumvarpinu lagt til að ráðherra skipi sérstakan ríkissaksóknara sem skal sinna því hlutverki sem ríkissaksóknari hefur sem æðsti handhafi ákæruvalds gagnvart embætti sérstaks saksóknara. Sú staða er nú uppi að ríkissaksóknari hefur tilkynnt ráðuneytinu um að hann telji rétt að víkja sæti tímabundið í öllum málum sem varða hinn sérstaka saksóknara. Jafnframt hefur hann óskað eftir að settur verði sérstakur ríkissaksóknari til að sinna lögbundnum skyldum ríkissaksóknara gagnvart hinum sérstaka saksóknara. Ástæða þessarar ákvörðunar ríkissaksóknara er að sonur hans er annar af forstjórum Exista hf. sem var stærstur hluthafi í Kaupþingi. Ljóst sé að komi málefni Exista til skoðunar hjá embætti sérstaks saksóknara sé ríkissaksóknari vanhæfur til að gegna hlutverki sínu í þeim málum sem þar verði til meðferðar. Þetta kemur fram í bréfi ríkissaksóknara.

Virðulegi forseti. Landslög gera ekki ráð fyrir því að embættismaður segi sig frá heilum málaflokki. Embættismaður og aðrir opinberir starfsmenn geta einungis sagt sig frá ákveðnum málum. Dóms- og kirkjumálaráðherra getur því ekki brugðist við þessum aðstæðum að óbreyttum lögum og er því lagt til að í lögin komi heimild til að skipa sérstakan ríkissaksóknara til að sinna verkefnum ríkissaksóknara til að sinna verkefnum ríkissaksóknara gagnvart embættum sérstaks saksóknara. Skal hlutverk hans vera það sama og hlutverk ríkissaksóknara svo sem kveðið er á um um meðferð sakamála og lögum um embætti sérstaks saksóknara. Hann skal sinna eftirliti með embættinu, skera úr um embættistakmörk hins sérstaka saksóknara gagnvart öðrum ákærendum og því hver skuli fara með mál ef í ljós kemur að háttsemi feli í sér önnur brot en þau sem sérstakur saksóknari fer með. Hann skal einnig hafa það hlutverk að taka ákvörðun um hvort sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæta ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs í stað þess að slíkt sé í höndum ríkissaksóknara. Er það í samræmi við að ríkissaksóknari komi ekki að þeim málum sem til rannsóknar verða hjá embætti hins sérstaka saksóknara.

Af þeim sökum er einnig nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um rannsókn, aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Er lagt til að tilkynningar rannsóknarnefndarinnar um grun um refsiverða háttsemi eða hvort ekki eigi að ákæra þann sem býður nefndinni upplýsingar berist til embættis sérstaks ríkissaksóknara í stað hins reglulega ríkissaksóknara.

Ég vil geta þess, virðulegi forseti, að í kostnaðarumsögn kemur fram að kostnaðarauki vegna breytinga þeirra sem lagðar eru til í frumvarpinu, 73 millj. kr., er einungis vegna þessara lagabreytinga. Ótalinn er annar kostnaður sem talið hefur verið að þurfi til að auka enn frekar getu saksóknaraembættisins til rannsóknarinnar. Ráðgjafi sérstaks saksóknara, Eva Joly, hefur sagt að það þurfi a.m.k. 500 millj. á ársgrundvelli til að unnt sé að starfrækja saksóknina og rannsóknina en um það hefur ekki enn verið tekin ákvörðun í ríkisstjórn. Ástæðan er sú að verið er að huga að breyttu skipulagi á embættinu og sjá hvernig þetta kemur út í kjölfar þeirra breytinga sem Alþingi mun ákveða.