137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[11:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur stutt að embætti sérstaks saksóknara fái víðtækari heimildir eða meira fjárhagssvigrúm frá því að það var sett á fót. Við munum því styðja það fyllilega að þetta frumvarp fari til nefndar, enda geri ég ráð fyrir að það sé vel rökstutt að þessa fjármuni þurfi. Það er væntanlega gert samkvæmt mati ráðuneytisins en ekki eingöngu að kröfu hins erlenda ráðgjafa. Það er mjög mikilvægt að við höfum aðgang að slíkum sérfræðingum sem þessi erlendi ráðgjafi er. Mig langar hins vegar aðeins að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra örstutt, af því að hún nefndi áðan að hinn erlendi ráðgjafi teldi þurfa 500 millj. á ársgrundvelli í rannsókn sem þessa. 500 millj. eru gríðarlega miklir peningar. Þeir eru kannski ekki miklir miðað við bankahrunið og allt sem þar hefur gengið á.

Mig langar aðeins að velta fyrir mér hvort til sé einhvers konar áætlun eða útlistun á því hvað felst í þessum kostnaði því að ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið fái slíkt. Ég er ekki að gera lítið úr því að þessa peninga þurfi. Ég velti bara fyrir mér hvort við fáum þá að vita í hvað þeir eiga að fara því að það er sama hversu góður og mikilvægur ráðgjafinn er, við þurfum vitanlega að taka þessar ákvarðanir á þeim forsendum og samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum.