137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra fyrir framsögu um mjög brýnt frumvarp. Ég ætla aðeins að tengja það spurningu hv. þm. Valgeirs Skagfjörðs. Í mínum huga tengist þetta mál óbeint Icesave-málinu sem nú er til umræðu í þinginu. Þó að við undirgöngumst alþjóðlegar skuldbindingar sem við þurfum að standa við til að geta verið hluti af hinu Evrópska efnahagssvæði og til að geta átt almenn samskipti við erlendar þjóðir eins og varðandi utanríkisverslun og fjármögnun, eru það mjög brýn skilaboð fyrir okkur þingmenn að taka eigi af festu á rannsókn þessa máls. Við ætlum fyrir hönd þjóðarinnar að skuldbinda hana til langs tíma vegna ýmissa fjárhagslegra skuldbindinga sem liggja nú á þjóðinni eftir þetta hrun. Fagna ég þess vegna þessu frumvarpi en vil þó koma inn á spurningu hv. þm. Valgeirs Skagfjörðs: Í greinargerð með frumvarpinu um heimild handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda segir að í viðræðum Hollendinga og Breta við íslensku samninganefndina hafi verið minnst á, með leyfi forseta:

„… mögulega aðkomu stofnana þeirra á sviði efnahagsbrota að rannsókn efnahagsbrota er áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins. Af hálfu þeirra var lýst yfir áhuga á að veita slíka aðstoð en það yrði til að efla verulega rannsókn sérstaks saksóknara, rannsóknarnefndar Alþingis, efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra.“

Ég vil því spyrja hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hvort þessar (Forseti hringir.) hugmyndir séu að einhverju leyti komnar til framkvæmda í dóms- og kirkjumálaráðuneyti.