137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og einlæga ræðu. Það er spurt hvort við getum borgað þetta og þingmenn segja að þeir ætli að láta það ráða afstöðu sinni. Ég tel að við getum borgað þetta og ég tel að umræðan eigi auðvitað ekki síður að vera um það hvernig við borgum þetta (ÓN: Já.) því við ætlum væntanlega að gera það. (KÞJ: Með ríkisábyrgðinni.) Við ætlum væntanlega að minnsta kosti að reyna. Vegamótin sem við stöndum á núna finnst mér vera: Ætlum við ekki að reyna það? Skuldin er til fallin. Skaðinn er skeður. Innlánstryggingarsjóðurinn íslenski er búinn að viðurkenna greiðsluskyldu sína, búinn að tilkynna að honum sé ljóst að Landsbankinn ráði ekki við að borga út innstæðurnar og ábyrgðin færist þar með yfir á hann. Í októbermánuði næstkomandi liggur skuldin öll á íslenska innlánstryggingarsjóðnum eins og hún leggur sig ef ekki er í höfn samkomulag um að ganga öðruvísi frá málinu. Þetta bið ég hv. þingmenn að hafa í huga (Gripið fram í.) sem telja sig geta fundið aðrar leiðir í þessum efnum.

Það er hárrétt. Það mun þurfa mikið til að ráða við allar skuldir, bæði innlendar og erlendar skuldir þjóðarbúsins. Ríkið sjálft er ekki það viðkvæmasta í þeirri stöðu þrátt fyrir allt. Það eru heildarskuldir þjóðarbúsins og einkum hinar erlendu skuldir í heild sem eru mesta áhyggjuefnið og ríkið ber auðvitað stóran hluta af þeim. Kennitölur ríkissjóðs sem slíks, þrátt fyrir allt, eru þó ekki verri en lítur út fyrir að verða jafnvel að meðaltali innan OECD á nokkrum næstu árum. Við þurfum miklar útflutningstekjur. Við þurfum minni innflutning og sumt af því mátti kannski missa sig sem hér var flutt inn á undanförnum árum og þarf ekki að þýða miklar (Gripið fram í: Hárrétt.) hörmungar þó eitthvað færri lúxusjeppar og flatskjáir komi inn í landið. Og við þurfum afgang af ríkissjóði. Þetta allt þarf að takast. Ég er sammála hv. þingmanni að mikilvægt verkefni nú er að teikna sviðsmyndirnar inn í framtíðina, hvernig við ætlum að stilla þessum hlutum upp og leggja niður fyrir okkur áætlanir okkar um það hvernig við förum í gegnum þetta vegna þess að það ætlum við að gera. Hv. þingmaður segir: „Það má ekki draga kjark úr þjóðinni.“ Ég er sammála því. Samt stend ég hér — mér liggur við að segja nætur og daga — og svara spurningum bæði þingmanna og fréttamanna sem spyrja endalaust: „Er Ísland orðið gjaldþrota?“ Ég segi nei.