137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að gera áætlanir og reyna að horfa fram í tímann. Það hefur ríkið gert núna hvað varðar sín eigin fjármál fram til ársins 2013 og það þarf að gera almennt á öllum sviðum þjóðarbúsins. En um leið er alveg ljóst að mjög margt er mikilli óvissu undirorpið, ekki bara hjá okkur heldur í heiminum almennt. Hvernig til tekst á Íslandi næstu árum, hvernig efnahagsumhverfið í heiminum þróast er allt hluti af þessari mynd.

Að lokum held ég að þetta snúist fyrst og fremst um þetta: Þorum við að trúa á framtíðina? Ætlum við ekki að gera það? Ætlum við ekki að veðja á framtíðina og gera allt sem við getum til að eiga góðan hlut í henni. Það er mikil óvissa í öllum heiminum, ekki bara á Íslandi, og þar kemur öryggisákvæðið við sögu. Við höfum þó þá viðmiðun sem er afar óvenjuleg að endurskoðunarákvæði séu í lánasamningi af þessu tagi lántakandanum í hag miðað við skilgreindar forsendur hans. Ég hvet hv. þingmann til að skoða gögnin í möppunni þar sem m.a. er farið yfir það af sérfróðum aðilum sem þekkja þess fá dæmi að um málin sé gengið með þeim hætti. Þrátt fyrir allt er þar inni sú trygging fyrir okkur.

Mér finnst þetta augljóslega vera þannig að við verðum að sýna kjark og þor til að trúa á framtíðina. Við ætlum okkur í gegnum þetta. Við eigum að treysta á þær verðmætu undirstöður sem Ísland á í sjálfu sér, í auðlindum sínum og mannauði, í tækifærum og möguleikum sem eru þrátt fyrir allt þannig að flestar þjóðir í heiminum geta litið okkur öfundaraugum gagnvart þeim. (ÓN: Nýta þær.) Ekki skortir okkur landrými, ekki fiskimið, ekki gróðurmold, ekki orku, ekki mannauð, ekki fallegt og stórt land sem er eftirsótt af ferðamönnum o.s.frv. Við erum ríkt og þróað land og þegar menn bera okkur saman við lönd sem hafa orðið að játa sig sigruð í þriðja heiminum þar sem ólæsi er 70%, þar sem barnadauði er hundraðfaldur á við Ísland, verð ég að segja alveg eins og er að ég veit ekki hvert fólk er komið. (Forseti hringir.) Við erum þó þrátt fyrir allt norrænt velmegunarríki, ríkt af auðlindum og eigum ekki heldur að tala okkur niður í eitthvert svartnætti.