137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Að mínu mati er árið 2009 örlagaríkasta ár í sögu Íslands. Við heyjum stríð án vopna. Það er misskilningur að Icesave-málið snúist um hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. ríkisstjórn sem nú er við völd eða aðra flokkadrætti. Þetta mál snýst um sjálfstæði þjóðarinnar, fullveldi hennar. Þetta mál snýst um fjölskyldurnar og heimilin í landinu. Þetta mál snýst um varnir auðlinda okkar, hæstv. fjármálaráðherra. Við vitum öll að Ísland á gnótt auðlinda og það eru þær auðlindir sem nágrannaþjóðir okkar ásælast. Ég kem nánar inn á auðlindirnar og auðlindastríðið sem við heyjum síðar í ræðunni.

Þetta mál snýst líka um hvernig við ætlum að búa Íslendingum þau skilyrði sem til þarf til að hér þróist samfélag þjóðar í vestrænu umhverfi. Það var sorglegt að lesa fréttir í morgun þess efnis að Ísland sé í fyrsta og efsta sæti af þeim 10 þjóðum sem taldar eru í mestri hættu á að lenda í gjaldþroti. Það kom fram á nýbirtum lista CMA, markaðsfyrirtækis í London sem heldur utan um skuldatryggingaviðskipti heimsins. Samkvæmt upplýsingum þessa markaðsfyrirtækis eru taldar tæplega 37% líkur á því að Ísland komist í þrot. Það eru ekki jákvæðar upplýsingar, frú forseti.

Í umræðunni í gær kom fram hjá stjórnarliðum að þingmenn Framsóknarflokksins væru svartsýnir. Já, frú forseti. Við framsóknarmenn erum talin svartsýn fram úr hófi. Við bendum á sannleikann í þessu máli. Við tölum íslensku í þessu máli, við drögum fram staðreyndirnar. Við erum hætt í blekkingarleiknum, leiktjöldin eru fallin. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann blasir við okkur. Við stöndum dag eftir dag til að reyna að fá hæstv. fjármálaráðherra til að segja okkur hverjar raunverulegar skuldir ríkissjóðs eru, hvað skuldirnar eru samanlagt miklar, hvað þær eru mörg prósent af landsframleiðslu, hvað íslenska þjóðin skuldar háar upphæðir. Það eru engin svör. Ef til vill veit hæstv. ríkisstjórn ekki hvað við skuldum. Það er slæmt og það sýnir að ríkisstjórnin hefur ekki yfirsýn yfir það verkefni sem hún er að fást við.

Með Icesave er verið að skuldbinda þjóðina til áratuga auk annarra lána sem stendur til að samþykkja nú í vor. Hagvöxtur byggist ekki á skuldum og jákvæður viðskiptahalli byggist ekki á því að þeir aðilar sem komu þjóðinni í þrot séu hættir að leggja sér gull til munns og hættir að flytja inn rándýra skemmtikrafta, eins og hæstv. viðskiptaráðherra sagði í umræðunum í gær. Ég er meira undrandi á ummælum hæstv. viðskiptaráðherra í dag en ég var í gær. Þetta er óábyrgt tal. Það sýnir rökþrot.

Jákvæður viðskiptahalli stafar fyrst og fremst af því að nú eru Íslendingar jafnvel hættir að geta eytt í nauðsynjar því að nú snýst lífið á Íslandi um að hafa ofan í sig og á og standa undir íbúðarskuldum sem hlotist hafa og breyttust í kjölfar hrunsins.

Ég ætla aðeins að kíkja á þennan samning. Mikið hefur verið rætt um lagagildi hans, hvort við eigum að leita til erlendra dómstóla og þá hverra og ég ætla ekki að eyða tíma mínum í það hér. Ég ætla að benda á í byrjun hvað samningurinn er vondur og hvernig hægt er fyrir stjórnvöld og aðra sem standa að samningum að komast frá honum. Það er ákvæði í öllum samningalögum allra ríkja um að hægt sé að víkja til hliðar eða í heild samningi ef talið er ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig.

Í 36. gr. íslensku samningalaganna í 2. mgr. segir:

„Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.“

Riftunarákvæði í samningi eru alveg skýr. Það er búið að gera samning núna, hann er undirritaður af fjármálaráðuneytinu. Samningur er kominn á, því er ekki að neita, en Alþingi á eftir að staðfesta ríkisábyrgðina. Þar liggur málið, hjá Alþingi. Ábyrgð okkar er mikil.

Í breska samningnum sem ég ætla að styðjast við nú — sá hollenski er mjög sambærilegur — eru gjaldfellingarákvæði í 11 liðum. Þau eru ákaflega íþyngjandi og er að finna í XII. kafla laganna. Þessi ákvæði eru öll mjög íþyngjandi fyrir íslenska ríkið og ætla ég fyrst að tala um gr. 12.1.5, vanefnd á öðrum lánum íslenska ríkisins. Málið er þannig vaxið að ef íslenska ríkið stendur ekki við hvers konar greiðslur á erlendum lánaskuldbindingum sínum á gjalddaga, gjaldfellur Icesave-samningurinn. Hér er verið að tala um sjö ára skjól. Við erum ekki í neinu sjö ára skjóli. Þó að eigum við að hefja afborganir af samningnum eftir sjö ár tekur hann gildi um leið og ríkisábyrgðin tekur gildi á Íslandi þannig að gjaldfellingarákvæðið er strax orðið virkt. Hér er verið að skuldsetja ríkið fram úr hófi og talað er um að við séum í sjö ára skjóli. Það er rangt, það er villandi og það er til þess fallið að skapa falskt öryggi. Hér er verið að taka lán á lán ofan og stöndum við ekki í skilum á gjalddaga gjaldfellur Icesave-samningurinn. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp gr. 12.1.11, Breytingar á íslenskum lögum:

„Hvers konar breyting sem verður á íslenskum lögum og hefur eða myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á getu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins til að inna greiðslur sínar […] af hendi …“ — þá gjaldfellur samningurinn.

Þetta þýðir að verið er að taka stjórnskipunarvald landsins af okkur. Dytti Alþingi í hug að breyta stjórnarskrá á þann hátt t.d. að setja auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá og verja þær þar með fyrir erlendum aðilum þá mundi Icesave-samningurinn vera gjaldfelldur og við þyrftum að standa í skilum með hann í heilu lagi. Það er ekki eðlileg samningagerð.

Það sem gerist ef vanefndir verða virkar, eins og ég kom inn á áðan, á að segja upp láninu og uppsögnin tekur gildi. Í b-lið gr. 12.3 er því lýst yfir að allur heildarhöfuðstóllinn eða hluti hans ásamt áföllnum vöxtum og allar aðrar uppsafnaðar útistandandi fjárhæðir samkvæmt fjármálaskjölum falla í gjalddaga. Hér er verið að skapa falskt skjól. Það kom fram í gr. 12.3., b-lið. Þetta var það sem ég ætlaði að tala um í grein 18 í samningnum sem er raunverulega alvarlegasti hlutinn í þessu. Þar eru stjórnvöld búin að skuldbinda okkur til að falla frá friðhelgisréttinum. Það er alvarlegasti hlutinn og í raun og veru er verið að afsala okkur sem þjóð öllum réttindum hér á landi og erlendis. Ég skil ekki hvað vakti fyrir samninganefndinni með því að samþykkja þetta ákvæði en þar stendur, með leyfi forseta:

„Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda, íslenska ríkið eða eignir þeirra eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi í hvaða lögsögu sem er gagnvart birtingu stefnu eða annarra gagna sem varða hvers konar ágreining, eða eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi gagnvart lögsögu, málshöfðun, dómi, fullnustu, fjárnámi […] eða öðrum lögfræðilegum úrræðum, er hér með fallið frá þeim rétti með óafturkræfum hætti …“

Frú forseti. Þetta jaðrar við að sé landráð samkvæmt íslenskum lögum. Það er verið að veita heimild á að allar eigur okkar … (Fjmrh.: Vill ekki þingmaðurinn bara segja þetta hreint út …?) Fjármálaráðherra grípur hér fram í og biður mig um að tala hreint út en ekki í hálfkveðnum vísum. Alveg sjálfsagt, ég skal gera það héðan í frá í ræðu minni ef þessi grein um friðhelgisréttinn hefur farið svona fyrir brjóstið (Gripið fram í.) á hæstv. fjármálaráðherra. Hún er vissulega alvarlegasti hlutinn í samningnum, ég viðurkenni það. Þá ætla ég að grípa niður í hvað þetta þýðir raunverulega, hæstv. fjármálaráðherra:

Með afsali á friðhelgisréttinum er átt við að hægt sé að kyrrsetja flugvélar og skip í eigu íslenska ríkisins hvar sem er í heiminum. Hægt er að yfirtaka banka og allar eigur þeirra sem íslenska ríkið á hvar sem er í heiminum og tel ég að undir þetta ákvæði falli einnig allar eigur íslenskra aðila erlendis hafi íslenska ríkið gert í það kröfur eða geti sannað á sig eignarhald þetta. Þetta er grafalvarlegt mál. Við eigum hvergi griðland. Við eigum ekki griðland á Íslandi, við eigum ekki griðland í útlöndum og það vita Bretar og Hollendingar. Þeir hafa tekið allsherjarveð í eigum Íslendinga í lofti, láði og á legi. Auðlindirnar eru það sem verið er að sækjast eftir.

Jón Daníelsson hagfræðingur talar í sjónvarpsfréttum 7. júní um hina hliðina á málinu, ef Ísland mundi lýsa sig gjaldþrota. Hæstv. fjármálaráðherra vill ekki ræða það mál. Samt er samþingsmaður hans, hv. þm. Atli Gíslason, búinn að viðra þessi mál ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Það verður að horfast í augu við vandamálin. Það þýðir ekki að fresta þessu. Við verðum að taka á vandamálunum og skoða hvernig þau eru. Haft er eftir Jóni Daníelssyni að ef íslenska þjóðin yrði gjaldþrota og lýsti því yfir að við mundum ekki standa við skuldbindingar á erlendum vettvangi mundu erlendir aðilar strax gera kröfu til þess að allar eigur íslenska ríkisins erlendis verði teknar upp í skuldirnar. Þetta er algerlega sambærilegt og gerist ef eitthvert ákvæði í eldri samningum veldur því að hann gjaldfellur. Icesave-samningurinn er raunverulega yfirlýsing um að ef við stöndum ekki í skilum, ef það verður greiðslufall, hafa þeir náð sér í þann rétt að taka allsherjarveð í okkur innan lands sem utan. Þetta er algerlega samkynja mál og því þurfum við að átta okkur á og lesa þennan samning með þeim augum.

Varðandi gildistöku samningsins sem hér um ræðir, hvort Alþingi þurfi að samþykkja hann, þarf meiri hluta þingmanna til að samþykkja hann til að ríkisábyrgðin taki gildi. Mig langar til að benda þingmönnum og landsmönnum á ákvæði III í breska samningnum sem varðar gildistöku og fyrirvara.

Samningur þessi öðlast gildi og það er talið upp í a-lið, b-lið og c-lið. Bretar og Hollendingar eru búnir að gefa okkur frest. Í grein 3.2 segir:

„Ef ekki hefur verið gengið frá þeim aðgerðum sem um getur í mgr. 3.1 fyrir lok sumarþings 2009“ — takið eftir, fyrir lok sumarþings 2009 — „er lánveitanda heimilt að rifta þessum samningi með því að senda Tryggingarsjóði innstæðueigenda tilkynningu um það og afrit til íslenska ríkisins.“

Þetta þýðir með öðrum orðum að íslenska þjóðþingið þarf ekki sjálfkrafa að samþykkja þennan samning eða að synja. Riftunin tekur gildi um leið og þingið fer heim í sumarfrí. Við erum að tala um að íslenska þingið veiti ríkisábyrgð. Ríkisábyrgðin er það sem þessir aðilar vilja vegna þess að þá eru þeir komnir með veð fyrir skuldum sínum. Við skulum átta okkur á því að það er ákvæði í samningnum, hæstv. fjármálaráðherra, sem gerir þeim raunverulega heimilt að rifta honum áður en hann tekur gildi.

Frú forseti. Við höfum íslensku þjóðina á bak við okkur í þessu máli. Þetta eru óheyrilegar skuldbindingar sem verið er að leggja á íslensku þjóðina. Það verður að fara fram raunhæft mat á því hvort íslenska þjóðin hafi gjaldþol til að standa við Icesave-skuldbindingarnar. Hér koma frumvörp inn í þingið um enn meiri skuldsetningu íslenska ríkisins. Alþingi þarf sem betur fer að leggja blessun sína yfir það eða hafna því. Við stöndum á gríðarlegum tímamótum. Við verðum að skoða þetta mál frá öllum hliðum. Erlendir sérfræðingar gefa út mat sitt á því að gjaldþol Íslands sé orðið afar erfitt. Þeir eru farnir að gefast um greiðslugetu okkar. Ég vil efla íslensku þjóðina, hún hefur eldmóð. Hún kann að berjast fyrir réttindum sínum. Við skulum standa saman í þessu máli. Þetta snýst ekki um núverandi ríkisstjórn. Þetta snýst ekki um hvort hún heldur velli, þetta snýst um að við tökum höndum saman, höfnum þessum samningi og byrjum upp á nýtt og semjum upp á nýtt við Breta og Hollendinga.