137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þennan málflutning könnumst við við. Við könnumst við þann málflutning frá árinu 2007 og 2008 að hér væri alltaf allt í lagi. Ef það var gagnrýnt var það bara bull og vitleysa, það væri svartsýnisraus, það væri hinsegin. Það er allt í himnalagi, að mati hæstv. fjármálaráðherra. (Fjmrh.: Hvenær hef ég sagt það? Ofboðsleg þvæla er þetta!) Þegar gagnrýni er tekið með þessum hætti.

Það var meginstef fjármagnseigenda og spunameistara þeirra árin 2007 og 2008 að hér væri allt í himnalagi. Stjórnin tók undir það og þar ber Samfylkingin mjög mikla ábyrgð. Þó að hæstv. fjármálaráðherra sé vorkunn að þurfa að verja gerðir Samfylkingarinnar á þessum árum er staðan sú að hér á leikritið að halda áfram, hér á að halda áfram að leyna upplýsingum og hér er allt í góðu lagi. Ég skil ekki hvernig hæstv. fjármálaráðherra getur komið fram með þessum hætti einu sinni enn, horft framan í íslensku þjóðina og talað með þessum hætti.

Ég minni hæstv. ráðherra á 19. júní. Hann virðist ekki taka lengur mark á erlendum matsfyrirtækjum. Þau eru líklega bara öll að bulla og þrugla og hann hefur greinilega réttast fyrir sér því að þeir erlendu aðilar sem bentu á að staða ríkisins og Íslands og Landsvirkjunar, allt sem heitir, væri neikvæð fara líklega með þvætting og lygi — og illgirni líklega — í augum fjármálaráðherra. En 19. júní mat lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ísland BBB- með neikvæðar horfur. Það fór ekki niður í ruslflokk þann daginn af því að það virtist ætla að standa við erlendar skuldbindingar sínar. Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra sagt að erlend matsfyrirtæki séu að segja ósatt eða hafi annarlegar ástæður fyrir því að meta Ísland með þessum hætti? Á ekki að taka mark á þessu, hæstv. fjármálaráðherra? Á bara að loka augunum áfram og á leikurinn að halda áfram?