137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nenni ekki að elta ólar við það þótt hv. þingmaður reyni að leggja mér orð í munn. Ég kannast ekki við það og man ekki til þess að ég hafi, hvorki á síðustu dögum, vikum, mánuðum né undanfarin ár, sagt að hér væri allt í lagi. Ætli margir þingmenn eigi á prenti fleiri varnaðarorð frá umliðnum árum?

Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, las upp eina grein eftir mig frá því fyrir 2–3 árum þar sem ég hafði áhyggjur af vaxandi skuldastöðu þjóðarbúsins. Alveg frá 2004–2005 hef ég úr þessum ræðustóli varað við því hvert stefndi, með flutningi þingmála og með því að skrifa blaðagreinar. Ég hef ekki dregið undan varðandi vandann sem við er að glíma, hvorki nú á þessum dögum né að undanförnu. Hefði ég flutt frumvarp um þær harkalegu aðgerðir í ríkisfjármálum sem raun ber vitni og lagt byrðar á ýmsa sem mann tekur sárt ef ég teldi hér allt í lagi? Ég bið hv. þingmann að reyna ekki endalaust að fara með umræðuna út í mýri með fleipri af þessu tagi.

Hitt er annað mál að það að horfast í augu við erfiðleikana og viðurkenna þá á ekki að þurfa að þýða að maður missi kjarkinn og trúna á framtíðina á Íslandi. Og það ætla ég ekki að gera. Það er gott að hv. þingmaður er farin að lofsyngja matsfyrirtækin. Það kann þá að hafa áhrif á afstöðu hv. þingmanns til þessa máls því að hér lýsa tvö af þremur stóru matsfyrirtækjunum því yfir hversu mikilvægt það sé fyrir Ísland upp á framtíðarhorfurnar að ganga frá þessu Icesave-máli, að niðurstaðan í því sé jákvæð, auki á stöðugleika og dragi úr óvissu. (SDG: … jákvæður.)