137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Ég get tekið undir mjög margt af því sem þar kom fram en þótti sérstaklega áhugaverð tilvitnun í Gunnar Tómasson hagfræðing. Ég hef lesið greinargerð Gunnars að efni og það er að sjálfsögðu algerlega galið að ætla sér að samþykkja samning eða yfir höfuð að velta því fyrir sér að samþykkja samning sem þegar er orðinn ógildur. Það kemur fram í samningnum sjálfum að forsendubrestur sé orðinn miðað við fyrirliggjandi gögn. Getur ekki hv. þingmaður tekið undir það með mér að það er í rauninni hálffáránleg staða sem Alþingi er sett í að þurfa yfir höfuð að ræða þennan samning og hvort við eigum að staðfesta hann?

Ég get jafnframt tekið undir það mat hv. þingmanns að hugsanlegri Evrópusambandsumsókn Íslands hafi verið blandað í þetta mál því að ég upplifði það sjálfur á fundi í breska þinginu þar sem þessum málum var blandað mjög náið saman. Hins vegar held ég að þeir sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið á næstu árum ættu ekki að velta því fyrir sér að styðja þennan samning því að verið er að draga okkur á asnaeyrunum með þessu. Það gerðist strax í upphafi þegar okkur var talin trú um það eða þeim sem þá töluðu fyrir Ísland að ef við gæfum eftir samningsstöðuna, lagalegu stöðuna, yrði komið til móts við okkur efnahagslega. Það hefur ekki gerst. Svo telja sömu menn núna að ef við skrifum undir verði einhvern tíma í framtíðinni komið til móts við okkur og þá væntanlega gegnum Evrópusambandið. En þannig mun það ekki gerast því að þegar við erum búin að undirrita þennan samning, staðfesta hann, er öll samningsstaða okkar farin og það á ekki hvað síst við um Evrópusambandið svo að Evrópusinnar ættu jafnvel öðrum fremur að leggjast gegn samþykkt þessa samnings. Getur hv. þingmaður tekið undir þetta með mér?