137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi hef ég, frú forseti, engum stillt upp við vegg í þessu máli og ætla ekki að gera. Ég hef neitað því að fara út í getgátur um óorðna hluti eins og möguleg óvænt afdrif þessa frumvarps.

Í öðru lagi var samninganefnd Íslands mjög vel skipuð og bak við hana stóðu stofnanir og ráðuneyti og hún hafði alla þá aðstoð bæði innlenda og erlenda sem þörf var á og mætti satt best að segja vel nestuð til leiks. Það var ekki þannig að einhverjir þrautreyndir harðsvíraðir samningamenn sætu við borðið hinum megin heldur embættismenn í viðkomandi ráðuneytum landanna og það ekkert mjög hátt settir. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja það við hv. þingmann og aðra að ég er hér. Ég ber ábyrgð á þessu máli. Ég er til svara fyrir það. Látið það vera að veitast að fjarstöddu fólki sem ekki getur hér borið hönd fyrir höfuð sér. (Gripið fram í.) Það er ég sem tek á mig ábyrgðina, pólitíska ábyrgð af því að hafa farið með þetta verk. (Gripið fram í.) Það má skamma mig en látið það vera að veitast að fjarstöddu fólki sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér hér. (Gripið fram í: Þetta er bara ritskoðun.) Gerið það í eitt skipti fyrir öll. Það er lítilmannlegt. Hin pólitíska ábyrgð er hér í salnum og hún fer ekki í felur og kveinkar sér ekki. (SDG: Kostnaðurinn.)

Varðandi tal um greiðsluþrot og að það sé betra að játa sig sigruð strax, hver er þá valkosturinn? Eru menn að mæla með því að við sækjum um aðild að Parísarklúbbnum? Erum við laus þá undan Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Erum við í betri stöðu? Er það eitthvað sem einhver þjóð í heiminum óskar sér? Svarið er nei. Það er mikill munur á því að vera þó enn sjálf að glíma við þessa erfiðleika, geta meðal annars borgað upp lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og losnað út úr því prógrammi og hinu að festast varanlega á þeim klafa sem engin sjálfstæð þjóð í heiminum óskar sér að vera á. Menn skulu fara að gæta orða sinna og velta því fyrir sér hvað þeir eru að tala um. Er það virkilega þannig, frú forseti, að hér inni í salnum sé einhver hluti þingmanna búinn að gefast upp í sálu sinni, vilji að við Íslendingar gefumst upp? Var það til þess sem menn létu kjósa sig á þing (Forseti hringir.) í alþingiskosningunum í vor? (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Sumir þeirra.) (Gripið fram í: Hvers lags málflutningur er þetta?)