137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Skil ég það ekki rétt að við getum enn þá skilað láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Það er allt til enn þá, er það ekki? (Gripið fram í.) þannig að þá hljótum við að vera laus úr klónum á þeim þó að við förum í þennan svokallaða Parísarklúbb. Ég er ekki endilega að mæla með því að fara í Parísarklúbbinn. Ég er bara að mæla með því að við skoðum nákvæmlega hver staða okkar sé og hvort við séum borgunarmenn fyrir öllum þeim skuldbindingum og í hvaða hættu við erum að leggja okkar auðlindir. Mér finnst það bara alveg sjálfsagt mál.

Hæstv. forsætisráðherra ætti kannski að minnast þess hvernig hann sjálfur talaði um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn — (Gripið fram í: Fjármálaráðherra.) fjármálaráðherra, áður en hann settist í þann stól sem hann situr í núna. Ég veit ekki betur en skilmálar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart okkur séu mjög áþekkir því eins og við hefðum farið í Parísarklúbbinn nema það að við þurfum (Gripið fram í: Sammála.) að greiða allt upp í topp. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Sammála.)

Varðandi það að vega að fólki sem ekki er hér — ég auðvitað óska þess að öll ríkisstjórnin sæti hérna og ræddi saman um þetta mikilvæga mál. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) (ÁI: ... samninganefndinni. Það er enginn í samninganefndinni í ríkisstjórninni.) Ég get alveg og hef sagt fyrir utan þennan sal hvað mér finnst um þessa samninganefnd þannig að ég er ekkert að vega að henni meira hér en annars staðar. (ÁI: Friðhelg í stólnum.) Já, ég hef, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, ritað um þetta opinberlega áður en ég tjáði mig um það hér í stólnum þannig (Gripið fram í.) að ef þeir vilja kæra mig eða bera hönd fyrir höfuð sér þá geta þeir gert það. (Gripið fram í: Ekki hér.)