137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er lagt upp til tveggja ára og ég hef margsagt það hér að í mínum huga er það keppikefli að halda því þannig. Við erum hins vegar þar sem við erum. Hann var kallaður til sögunnar hér í haust og ég hef ekki séð menn útfæra hugmyndir um hvernig við ættum að takast á við okkar erfiðleika öðruvísi en í samstarfi við alþjóðasamfélagið og nágrannaþjóðir. Ef menn hafa einhverjar aðrar útfærðar hugmyndir þá væri gjarnan gott að fá þær upp á borðið. (Gripið fram í.)

Svo verð ég að segja að mér finnst það undarlegt að sá andi öðrum þræði svífi hér enn yfir vötnunum að með því bara að hafna þessum samningi þá sé Icesave-vandinn úr sögunni. Málið er þarna. (Gripið fram í.) Málið er þarna og (Gripið fram í.) ég bendi mönnum á að lesa í greinargerð með frumvarpinu hvað gerist ef ekki er komin lausn í málið fyrir lok október þessa árs. Það er búið að viðurkenna greiðsluskylduna. Þá fellur hún öll eins og hún leggur sig í einu lagi á íslenska innlánstryggingarsjóðinn. (Gripið fram í.) Það er veruleikinn. (ÁI: 27. október.)