137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat lungann úr deginum í gær og hlýddi á þessar umræður. Ég verð alltaf meira og meira undrandi eftir því sem fleiri framsóknarmenn koma í ræðustól. Hér eru notuð mjög sérstök orð yfir glapræði, að við séum að steypa þjóðinni í algera glötun með því að gangast undir þessar skuldbindingar. Mér finnst að menn hafi hreinlega ekki kynnt sér þetta mál, farið ofan í þær töflur og annað sem fylgir með þessu máli. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu varðandi þessar greiðslur, hvernig þær eru núna, að þær eru vissulega háar fram til ársins 2016 meðan við erum þó í skjóli af því að greiða Icesave-skuldirnar. Talað er um að þetta séu 11–16% af vergri landsframleiðslu, skuldabyrðin, afborganir og vextir af skuld ríkissjóðs sem er gífurlega mikil á árunum 2011–2016. En eftir að við förum að standa undir þessum skuldbindingum vegna Icesave fer hlutfallið upp í 12% en fer síðan lækkandi niður í 8% árið 2021. Viðskiptaráðherra hefur sannarlega sýnt fram á það, ef notað er annað viðmið í þessu eins og hvað við þyrftum að greiða mikið af útflutningstekjum okkar á næstu árum til að standa undir þessu, að þetta er vel viðráðanlegt. Ég skil ekki hvað vakir fyrir hv. þingmönnum Framsóknarflokksins þegar þeir mála skrattann á vegginn (Gripið fram í.) í þessu máli vegna þess að auðvitað er skuldabyrðin mjög erfið í öllu þessu máli en hún er ekki óviðráðanleg. Við höfum margfarið yfir það og sýnt fram á það í greinargerð og í ræðum og riti að þjóðin getur vel staðið undir þessum skuldum. Þegar því er síðan bætt við að Íslendingar séu að afsala sér eignum sínum af því að ganga á eignir og auðlindir er mér algerlega ofboðið.