137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka góða fyrirspurn. Ég tek vissulega undir það með hv. þingmanni að þessi gögn á að birta. Það er í rauninni hjákátlegt að ríkisstjórn sem komst til valda ekki síst vegna gríðarlegrar áherslu sinnar á að allt ætti að vera uppi á borðum í samfélaginu, ekki mætti fela neitt — það var stefið í kosningabaráttu beggja stjórnarflokkanna — hefur gengið lengra en líklega flestir aðrir í því að reyna að leyna upplýsingum. Það þarf að kría út hvert einasta skjal. Það átti að fela sjálfan samninginn fyrir Alþingi sem átti að taka afstöðu til hans þangað til hann birtist í fréttum. Þá sögðu stjórnarliðar sem svo að það væri þá ekki um annað að gera en birta þetta fyrst byrjað væri að sýna samninginn í fréttunum.

Núna fáum við heilu möppurnar af einhverjum gögnum sem hafa verið handvalin af embættismönnum í ráðuneytunum sem ákveða hvað þingmenn eiga að fá að sjá og hvað ekki. (Fjmrh.: Viltu fá heilt bretti eða hvað?) Ég vil, hæstv. … (Fjmrh.: Þetta er óboðlegur málflutningur. Hann er meira að segja þér til skammar og er þá mikið sagt.)

(Forseti (ÁI): Forseti áminnir þingmenn um að gæta orða sinna í salnum.) (BJJ: Þú átt að ávíta hann.)

Nú þykir mér hæstv. fjármálaráðherra vera farinn að missa það sem kallað er „kúlið“. Hann hefur náð að halda sæmilega vel á málflutningi sínum hér þrátt fyrir gríðarlega erfiða stöðu. En nú sýnist mér flest benda til þess að hann sé að játa sig sigraðan, orðinn fullkomlega rökþrota, kominn í mótsögn við sjálfan sig, orðinn allt annar maður en hann var hér áður fyrr, fyrir kosningar. Búinn að hrekja til baka öll sín rök fyrir þessum samningi og fer nú í skæting því að annað virðist hann ekki eiga eftir í þessari umræðu. Svona er nú komið fyrir þessari ríkisstjórn og svona er nú komið fyrir þessum samningi. Ég legg til að Alþingi hafni Icesave-samkomulaginu.