137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:28]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var skrýtin ræða og ég verð að segja afar ómakleg. Ég veit ekki til þess að nokkur maður, hvorki í ríkisstjórn né á þingi né í ráðuneytum eða samninganefndum hafi ekki borið hagsmuni Íslands fyrir brjósti í þessu máli öllu saman. Það er afar ómaklegt að vera með einhverjar dylgjur um annað. En við skulum hafa í huga að það er ekki bara mikilvægt að styðja málstað Íslands og Íslendinga. Það er líka mikilvægt að berjast fyrir því að málstaður Íslendinga sé góður og að við komum heiðarlega fram við viðsemjendur okkar í þessu máli sem öðrum.

Að halda því fram að hér hafi allt verið í himnalagi, að Landsbankinn hafi verið í góðum rekstri, útrásin verið að mala gull (SDG: Hver er að gera það?) og síðan hafi (Gripið fram í: Hver ...) bara allt hrunið vegna þess að einhver tilskipun frá Evrópusambandinu (Gripið fram í.) brást. Hér vorum við búin að byggja upp bankakerfi sem var með tífalda landsframleiðslu undir, var með mörg hundruð milljarða kr. í innstæðum á ábyrgð annarra. Að halda því fram að við getum bara hoppað frá þessu án þess að bera neina ábyrgð á því er svo fráleitt að það er ekki einu sinni svara vert. (Gripið fram í.)