137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki alveg utanaðkomandi þegar ég á að meta það af hverju vinstri flokkarnir sem voru kallaðir A-flokkarnir í gamla daga skipta með sér verkum með þessum hætti. Þó er ég alveg sannfærður um að það tengist þeim tveim guðum sem Samfylkingin á. Þeir eru annars vegar Capacent Gallup og hins vegar Evrópusambandið. Ég er alveg viss um það að samkvæmt Capacent Gallup er ekki vinsælt að vera í forustu í þessu máli. Þess vegna mun Samfylkingin reyna að halda sig eins langt frá því og mögulegt er og má alveg færa rök fyrir því að svona almennt þegar hefur komið að þessum málum öllum saman sem tengjast bankahruninu öðru slíku þá hafi Samfylkingunni tekist býsna vel að fela sig og fela sín spor.

Hæstv. forsætisráðherra flutti breytingartillögu við innleiðingu laganna á sínum tíma, þ.e. þegar þessi tilskipun var innleidd í íslensk lög þá kom breytingartillaga frá hæstv. forsætisráðherra sem þá var hv. þingmaður og vildi ganga mun lengra í því að ábyrgjast innstæður og hefur verið bent á að ef þingmenn hefðu samþykkt þá tillögu þá væri ábyrgð okkar um 400 milljörðum meiri en nú er. Kannski er það svo. En ég held, virðulegi forseti, að stærsta einstaka ástæðan sé sú að þetta er þannig mál að það er ekki líklegt til vinsælda og þýðir að hæstv. ráðherra mun halda sig frá því. Það er auðvitað algerlega ábyrgðarlaust því í þessu máli þurfum við öll að standa saman og maður mundi ætla að sá sem stýrir ríkisstjórn væri fremstur í flokki að útskýra og taka umræðu um þessi mál.