137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það líður nú að lokum þessarar umræðu um ríkisábyrgð vegna Icesave-samkomulagsins. Umræðan hefur verið harla fróðleg og upplýsandi á margan hátt. Hér hafa fjöldamargir þingmenn tekið til máls, einkum þingmenn stjórnarandstöðunnar, og bent á fjöldamörg atriði sem varða þennan samning og aðdraganda hans sem gera það að verkum að við verðum að sýna mikla varkárni gagnvart því að samþykkja hann og eigum auðvitað að fella hann eins og hann liggur fyrir.

Með því er ég ekki að segja að við eigum ekki að leita samninga en það þarf að gera á öðrum forsendum og með öðrum hætti en hér liggur fyrir. Það hlýtur að vera verkefni okkar í þinginu að móta áherslur í því sambandi, helst eins og fram hefur komið m.a. af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, reyni að móta lausnir á þessu máli sem byggja á því að hagsmuna Íslands verði gætt til hins ýtrasta.

Þetta mál er afar vont, það er vont að við skulum vera í þessari stöðu og það er erfitt að leysa úr því, enginn er í vafa um það. En við þurfum að gera það og við þurfum að gera það saman. Þess vegna tek ég eindregið undir það sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði hér í gær, að við þurfum að finna lausnir á þessu máli óháð flokkslínum og reyna að leita leiða til þess að útkljá það þannig að Íslendingar komi sem best út úr því. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt í þeirri vinnslu sem á eftir að fara fram í þinginu að þær nefndir sem fá málið til umfjöllunar — fram hefur komið að málið gengur til fjárlaganefndar sem mun hefja umfjöllun sína núna þegar að þessum fundi loknum eftir því sem ég best veit. Ákveðnir þættir munu að sjálfsögðu ganga til hv. efnahags- og skattanefndar og utanríkismálanefndar vegna þess að málið er auðvitað víðtækt og tekur á mörgum þáttum. Ég held að menn geti ekki velkst í vafa um að það eru afar mörg atriði sem þessar nefndir þurfa að kafa ofan í til þess að fá botn í ýmsa þætti þessa máls.

Ég nefni hér stjórnskipulega og þjóðréttarlega þætti. Ég er þeirrar skoðunar að lagalegir þættir í þessu sambandi séu margir hverjir óútkljáðir, bæði hvað varðar skuldbindingar Íslendinga og lagaleg atriði sem varða samninginn sjálfan. Ég held líka að það þurfi að fara miklu betur ofan í efnahagslega þætti, bæði forsendur sem varða framtíð efnahagsmála á Íslandi og forsendur sem varða eignasafn Landsbanka, hvað er líklegt að endurheimtist af þeim eignum sem þar eru enn. Síðan þarf að skoða óbein áhrif þessa samkomulags á efnahagsmálin, bæði út frá lánshæfismati, gjaldeyrismálum og fleiri þáttum. Þetta er auðvitað ekkert áhlaupaverk og ljóst að þær nefndir sem þarna koma að málum þurfa að hafa sig allar við til þess að vinna þetta verk vel. Ég held að menn eigi frekar að gefa sér fleiri daga til þess að fjalla um málið en reyna að klára það í einhverjum flýti vegna einhverra fyrir fram ákveðinna dagsetninga sem þeir hafa gefið sjálfum sér. Menn mega ekki í þessu sambandi búa sér til einhvern tímafrest sem leiðir til þess að málið fær ekki nægilega vandaða umfjöllun í þinginu.

Ég nefni líka hér og árétta það í lok ræðu minnar að mér finnst eðlilegt að þingið eða þær þingnefndir sem málið varðar fái upplýsingar um hvaða gögn eru til í fórum stjórnvalda, samninganefndar og þeirra ráðuneyta sem málið varðar sem ekki hafa komið fram enn. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti í gær að slík gögn væru fyrir hendi, heilu brettin, ef ég man orð hans rétt, og er það vafalaust rétt. Við höfum fengið mikið af gögnum í hendur, það er alveg rétt sem komið hefur fram, en það er ljóst að eitthvað vantar upp á. Mér finnst afar mikilvægt að þingið eða þingnefndir fái upplýsingar um hvaða gögn séu til þannig að það sé þingið sjálft, þingmenn sjálfir sem geti ákveðið (Forseti hringir.) eftir (Forseti hringir.) hvaða gögnum þeir kalla þegar málið fer til frekari vinnslu í þingnefndum.