137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á andsvari hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Mér heyrðist hún taka meira og minna undir orð mín um að samningur þessi væri bæði óréttlátur og ósanngjarn og að við þyrftum að standa saman og sameiginlega að honum. Ég verð bara að taka undir með henni varðandi þau orð.

Það er hins vegar algjörlega fráleitt að halda því fram að þjóðin og þingheimur allur séu einhuga og samstiga um þennan samning eins og hann lítur út núna. Það er þess vegna sem ég kom hér upp og hvatti menn til þess að standa saman og skoða þá ágalla sem eru á samningnum, vegna þess að hann er óréttlátur, vegna þess að hann er ósanngjarn, vegna þess að það er ósanngjarnt að láta rúmlega 300 þúsund manna þjóð bera fulla lagalega og fjármálalega ábyrgð á galla í evrópskri tilskipunarlöggjöf. (Gripið fram í.)

Þess vegna þurfum við að standa saman að því að fá þessi ákvæði betrumbætt, bæði í samningnum og pólitískt. Þess vegna þurfum við að standa saman út á við. Það hefur aldrei verið látið á það reyna að öll þjóðin og allir flokkar og allir þeir sem hér tala til erlendra aðila standi saman. Ég hef oft lent í því í ívið minni málum að standa að samningaviðræðum. Þegar allir standa sameiginlega að þeim ná menn betri niðurstöðu en að karpa þegar fjöregg þjóðarinnar er í húfi.