137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þau spor sem við stöndum í eru óréttlætið og ósanngirnin. Það er ekki sanngjarnt að við skulum standa í þeim sporum að þurfa að axla byrðar og borga skuldir m.a. óreiðumanna, eins og sagt hefur verið. En gleymum því ekki að þessi óreiða var hér meðal okkar sjálfra, þessir óreiðumenn voru hér með okkur, þjóðin dillaði þeim, þjóðin hossaði þeim, kaus þá viðskiptamenn ársins, frumkvöðla ársins og við flöttum þá út á forsíðum blaða og brugðum á þá hetjuljóma. Við hljótum að bera ábyrgð á meðvirkni okkar og hjarðhegðun okkar hvað það varðar. (Gripið fram í.)

Samningurinn sem við erum að taka afstöðu til hér eða ríkisábyrgðin gagnvart honum er okkar leið út úr þessum erfiðu sporum. Við skulum ekki gleyma því að okkur er ekki einum ætlað að axla ábyrgðina af Icesave-reikningunum. Hollendingar og Bretar axla sinn hluta þess reiknings og taka helminginn á móti okkur þannig að það er ekki eins og við séum þau einu sem berum ábyrgðina. Hvað sem því líður erum við engu að síður í þeim sporum að við verðum að halda andlitinu gagnvart öðrum þjóðum. Við getum ekki skellt dyrum á veröldina. Við ökum á bílum, við borðum mat, við notum eldsneyti sem flutt er inn til landsins, við erum algjörlega háð öðrum þjóðum með öll okkar lífskjör og alla okkar lífshætti, gleymum því ekki.

Ég er ekki að mæla hér með því að við leggjumst í duftið en við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því í hvaða sporum við erum og bregðast við með raunsæjum hætti þeirri stöðu sem við erum stödd í.