137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmönnum Framsóknarflokksins liggur mikið á. Ég hef aldrei áður heyrt beðið um tvö andsvör áður en ræðumaður hóf mál sitt. (Gripið fram í.)

Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið þó að ég verði að vissu leyti að segja að ég hef verið svolítið hugsi á köflum undir henni undanfarna daga, ég bið engan að taka það til sín sérstaklega. Menn segja hér gjarnan, sem er rétt, að þetta séu stór og afdrifarík mál og sumir upplifa þetta kannski sem stærstu stund sína hér fyrr eða síðar. Nú skal ég ekki segja um það, oft hafa menn áður staðið í afdrifaríkum sporum hér á Alþingi, meðal annars í október. Mér varð einmitt hugsað til þeirra daga þegar mikill alvöruþungi lá hér yfir allri umræðu og þegar þingið, þrátt fyrir ólíka afstöðu að einhverju leyti til mjög erfiðra mála sem á köflum varð að afgreiða á afar skömmum tíma, náði að sameinast mjög vel um að hafa umræðu og anda hér í október í samræmi við alvöru málsins. Það tókst vel og ég fann þegar ég fór út í þjóðfélagið að það kunni þjóðin að meta. Þá var ekki tími pólitískra skylminga, stráksskapar eða upphlaupa og hann er það ekki heldur núna því að við erum í þessari orrustu miðri. Við erum komin aðeins lengra frá upphafi hörmunganna og hruninu en við vorum í október og nóvember en glíman stendur yfir.

Ég hef reynt að svara spurningum jafnóðum í andsvörum eins og ég hef getað, ég ekki alltaf komist að því að aðrir hafa verið frekir til fjörsins þannig að ég vona að það standi ekki eftir mikið eftir af beinum spurningum sem hér hafa komið upp auk þess sem það má þá bæta úr því við seinni umræður. Málið fer nú til þingnefndar og það er afar mikilvægt að þar fái það vandaða skoðun og við höfum reynt að aðstoða við það, bæði við umræðuna hér og síðan rannsókn málsins í nefnd með því að reiða fram gögn með þeim hætti að það á sér ekki sögulegar hliðstæður, það fullyrði ég, a.m.k. ekki á mínum tíma hér sem er aðeins lengri en hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem vitnaði í sína miklu þingreynslu og þátttöku í pólitík hér áðan. (Gripið fram í.) Ég man engin dæmi um að menn hafi reynt að greiða fyrir því að þingmenn og almenningur hefðu aðgang að gögnum með þeim hætti sem hér hefur verið gert og mér sárnar að menn skuli endurtaka hluti eins og þá að staðið hafi til að leyna einhverju fyrir þingmönnum sem aðstæður væru til að upplýsa. Það er rangt. Ég endurtek: Það er rangt. Það hefur alveg legið fyrir frá upphafi, frá því í byrjun febrúarmánaðar, að haldið væri utan um þetta mál og alla skjalavörslu í kringum það þannig að það væri í samræmi við alvöru málsins, að skrá inn í bókunarkerfi ráðuneytanna öll gögn, að afhenda rannsóknarnefnd Alþingis þau og síðan nú í samráði við hana, að reiða fram gögn þannig að þing og þjóð hefðu sem gleggsta mynd af þessu máli. Það er hins vegar mikilvægt að leggja á það áherslu að það þarf að gera í samráði við nefndina til að rannsóknarstarf hennar bíði ekki skaða af og hv. þingmenn hafa það eftirleiðis í huga þegar þeir vitna hér máli sínu til stuðnings eða túlka trúnaðargögn.

Ég upplýsti það hér strax í gær að viðbótargögn, hliðargögn í þessu máli, er sjálfsagt að reiða fram eftir því sem þingmenn telja sig geta haft gagn af því. Það eru t.d. til bréfaskriftir sem tengjast eingöngu frystingarþætti þessa máls sem ekki hafa beina skírskotun yfir í lausn Icesave-deilunnar sjálfrar og nýjustu gögnin sem ekki voru komin inn í bókunarkerfi ráðuneytanna. Verið er að fara yfir þau og þau verða þá afhent og sett í möppurnar og í þingnefnd. Það hefur því ekki staðið til og stendur ekki til að halda neinu undan í þessum efnum.

Eðlilega eru skiptar skoðanir um þetta mál. Eðlilega er þjóðin ósátt við þetta mál. Ég hef sagt það áður og get endurtekið það hér: Ég þekki engan Íslending sem er ánægður með þetta mál, þess er ekki að vænta. Við rötuðum í mikla ógæfu og þetta er tilfinnanlegasti hluti hennar, það sem við sitjum uppi með af þessum ástæðum. Það er ekki gaman að standa í þessum sporum og leggja til við Alþingi Íslendinga að við veljum þessa leið að okkar dómi þá skástu út úr málinu, en í mínum fórum eru ekki betri tillögur.

Einn hv. þingmanna sagði hér í dag að hún hefði horft í augu dóttur sinnar ungrar þegar hún fór hingað til vinnunnar í morgun. Ég á líka unga dóttur, nokkrum árum eldri en dóttur þessa hv. þingmanns. Ég tel mig vera að vinna fyrir börnin mín og barnabörnin vonandi. Ég tel að við þurfum að gera okkar allra besta núna við erfiðar aðstæður, að koma Íslandi út úr þessum erfiðleikum. Ég tel að við séum að ná því fram, m.a. með lendingu þessa máls, að við fáum tíma og rými og aðstæður til þess að kljást við aðsteðjandi erfiðleika næstu mánaða og missira í skjóli fyrir þessu máli, sem ekki var víst að yrði í boði nema að ganga frá því með einhverjum slíkum hætti. Hv. þingmenn verða að hafa það í huga að ekki hefði það verið á vísan að róa með dómstólaleið hefði hún boðist, sem hún gerði ekki. Það gat orðið tvísýnt um hvort Ísland fengi út úr því betri niðurstöðu en þennan samning eða jafnvel miklu verri niðurstöðu. (Gripið fram í.) Það er rétt, það samrýmist réttlætiskennd manns illa að fá ekki einfaldlega úr slíku skorið og auðvitað hefðu Íslendingar verið miklu sáttari við að það væri bara hreint og klárt á grundvelli dóms að ábyrgð okkar væri þessi. Ég tel að yfirgnæfandi líkur séu á að þannig hefði það farið einfaldlega út frá þeim lagagögnum sem ég sé hér í málinu.

Hættan á því að málið hefði farið verr fyrir okkur er líka til staðar. Áhættan af því að hafna þessari samkomulagsleið og leggja út í óvissuna um hvort okkur bjóðist eitthvað betra er líka mikil þannig að ábyrgðin á báðar hliðar er mjög mikil. Að sjálfsögðu verður það ekki létt fyrir nokkurn mann að ýta á græna hnappinn og styðja þessa ábyrgð, því fylgir mikil ábyrgð. En það verður líka mikil ábyrgð fyrir þá sem hafna þessari niðurstöðu. Menn verða þá að horfast í augu við hvaða afleiðingar það gæti haft.

Ég fagna þeirri þróun umræðunnar að flestir viðurkenna nú að ekki er um annað að ræða en að koma þessu máli einhvern veginn út úr heiminum með samningum. Það er almennt ekki rætt lengur mikið um annað en þá staðreynd að undan þessu máli komumst við Íslendingar ekki. Tjónið er orðið, skaðinn er skeður og við munum alltaf þurfa með einhverjum hætti að glíma við að komast frá því. Spurningin er bara hvernig. Er þetta skásti kosturinn sem er í boði í ljósi þeirra aðstæðna sem við vorum í og höfum verið í eða sjá menn einhverjar aðrar líklegar, betri og færari leiðir?

Hverju væru menn tilbúnir til að kosta í óvissu og tíma sem gæti mælst í missirum, t.d. til þess eins að fá, ef mögulegt væri, einhvern dómstólafarveg í þessu máli? Því verða þeir að svara sem tala enn eins og það sé raunhæf leið, sumpart talsmenn flokka sem sjálfir játuðu sig sigraða og viðurkenndu að sá kostur væri ekki lengur í boði strax í nóvembermánuði sl. Er hann þá færari núna þegar við erum búin að leggja upp í viðamikið endurreisnarprógramm í efnahags- og atvinnulífi okkar og varðandi ríkisfjármál okkar og samskipti við önnur lönd sem munu stranda ef þetta mál strandar.

Ég hef verið mjög hreinskilinn um það að ég hef miklar áhyggjur af því hvað gerist ef Alþingi hafnar þessum samningi. Á ég ekki að vera það? Vill hv. þm. Birkir Jón Jónsson ekki að ég segi hug minn í þeim efnum? (Gripið fram í.) Hvernig vill hann hafa umræðuna? Ég vísa einfaldlega í staðreyndir hvað varðar suma þætti þessa máls. Það eru skjalfestar staðreyndir að endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun tefjast ef þetta mál er ekki að leysast. Það eru skjalfestar staðreyndir að gjaldeyrislánin frá hinum Norðurlöndunum muni þá ekki fást afgreidd. Hversu lengi það dragist er ómögulegt að segja á þessu stigi málsins. Annað byggir meira á mati um mögulegar afleiðingar. Ég tel yfirgnæfandi ástæðu til að óttast að lánshæfismat Íslands mundi hrynja endanlega ef Alþingi hafnar þessum samningi. Af hverju segi ég það? Meðal annars vegna þess að tvö af stóru matsfyrirtækjunum hafa þegar tjáð sig í þá veru, það hafa bæði Moody's og Fitch gert þar sem þau hafa talað um niðurstöðuna sem sé í sjónmáli í Icesave-deilunni sem mikilvægan þátt í því að eyða óvissu og skapa skýrari mynd af því hvernig Íslandi tekst að glíma við erfiðleikana. (Gripið fram í.)

Ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af því, og þær eru ekki endilega frá mér sjálfum sprottnar, að útflutningsstarfsemi Íslands gæti lent í erfiðleikum og það eru ófá símtöl sem ég fæ núna þessa dagana frá forustumönnum í útflutningsgreinum sem spyrja mig einfaldlega: Steingrímur, er nokkur minnsta hætta á því að þetta mál falli? Við megum illa til þess hugsa.

Það er oft auðvelt að láta svartsýnina, bölsýnina eða vonleysið ná tökum á sér. Það gildir örugglega um okkur sem einstaklinga og það gildir um marga Íslendinga í dag. Það er erfitt að bera höfuðið hátt og vakna bjartsýnn á morgnana og fara glaður fram úr. Viðfangsefnin eru erfið og horfurnar að mörgu leyti dökkar. Þá er þetta spurning um val: Hvernig vilja menn ganga að verkunum? Er það ekki þrátt fyrir allt að halda voninni og bjartsýninni vakandi? Við getum auðvitað leitað á náðir skáldanna sem hafa átt erfiða daga sum hver eins og kunnugt er.

Ætli það hafi ekki verið hið góða sálmaskáld Björn Halldórsson í Laufási sem orti einu sinni, og þá hefur sennilega staðið illa í bólið hans:

Verður mér myrkvum á vegi

Vesturför óyndisleg?

Kvíðir þú komandi degi,

kolbrýnda nótt, eins og ég?

Annað gott skáld, Jóhann Sigurjónsson, það var býsna orðinn dökkur himinninn yfir honum þegar hann kvað sitt fræga ljóð:

Bak við mig bíður dauðinn,

ber hann í hendi styrkri

hyldjúpan næturhimin

helltan fullan af myrkri.

Svo var annað skáld sem var samtímamaður þessara og hann kvað:

Þú fólk með eymd í arf!

Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,

litla þjóð, sem geldur stórra synda,

reistu í verki

viljans merki, —

vilji er allt, sem þarf.

Trúðu á sjálfs þín hönd, en undur eigi.

Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.

Bókadraumnum,

böguglaumnum

breyt í vöku og starf.

(Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hv. þingmenn geta valið sér skáld og vitnað í þau eftir þörfum. Ég geri það fyrir mitt leyti. Ég ætla að gera Einar Ben. að mínu átrúnaðargoði í þessu máli og hvað varðar framtíð Íslands. Ég ætla að veðja á hana, ég ætla að trúa því að við sjálf ætlum okkur að takast á við erfiðleikana, að við ætlum ekki að missa vonina um betri framtíð fyrir Ísland. Til þess þurfum við að komast í gegnum þá erfiðleika sem okkur eru á höndum, það er alveg augljóst mál, við verðum að sigrast á þeim. Við þurfum að gera margt nú á næstu dögum og vikum og undirbúa haustið og veturinn vel. Hann verður okkur erfiður, sennilega annar af tveimur erfiðastur á þessu árabili sem við erum núna að ganga í gegnum og svo fer vonandi að blása til betri tíðar. Það er væntanlega markmiðið og væntanlega ætlunin.

Eitt megum við aldrei gera og það er að verða viðskila við þær systur, vonina og trúna.