137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þarna í lokin var ég farinn að kannast við gamla Steingrím J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra. Ég vona að við sjáum meira af honum á næstunni því að það hefur farið lítið fyrir honum að undanförnu, baráttumanninum, sanngirnismanninum, prinsippmanninum, hann hvarf. Á stundum hef ég haldið að fjármálaráðherra væri andsetinn því að hann hefur verið svo ólíkur manninum sem við höfum fylgst með í gegnum tíðina. En ég vona að baráttuandinn taki sig upp á ný og hann treysti sér þá til að verja þjóð sína og veita henni fegurri framtíðarsýn en þann vegg sem verið er að reisa með þessu Icesave-samkomulagi eftir sjö ár.

Ég hefði áhuga á að heyra hæstv. ráðherra segja mér hver kostnaðurinn er við alla þessa málsmeðferð, þ.e. þá vinnu sem farið hefur í þetta, því að hæstv. ráðherra lýsti því svo að heilu vörubrettin af gögnum lægju fyrir. Hver var kostnaðurinn við að ná fram þessari niðurstöðu? Hleypur hann á milljónum eða tugum milljóna króna?