137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið giskað á að kostnaður Íslendinga í þessu máli hlaupi hugsanlega á tugum milljóna. En nú upplýsti hv. þm. Pétur H. Blöndal að kostnaður Hollendinga við málsvörn sína eða sókn sína gegn Íslendingum í málinu hefði numið 7 millj. evra eða 1,3 milljörðum kr. og það kom á daginn að það voru Íslendingar sem borguðu fyrir árás Hollendinga á okkur. Íslendingar fullkomnuðu niðurlægingu sína með því að taka á sig allar Icesave-skuldbindingarnar og bjóðast svo til að borga ómakið, borga kostnaðinn sem Hollendingar lögðu í við að láta berja á okkur og borga þar margfalt það sem við settum í okkar eigin málsókn. Þetta er hin fullkomna niðurlæging í málinu, máli sem hefur verið í tómu tjóni frá upphafi og er núna enn að sýna hvers eðlis það er með því að Íslendingar borga kvölurum sínum.