137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæta ræðu. Þó að ég væri ekki sammála honum um niðurstöðurnar var ræðan ágæt og hæstv. ráðherra hefur staðið sig býsna vel í umræðum. Hann hefur verið nokkuð einmana í vörninni fyrir þetta frumvarp vegna þess að lítið hefur farið fyrir samstarfsflokki hans í umræðunni, þorri þingmanna hans eigin flokks hefur ekki tjáð sig, jafnvel ekki þeir þingmenn sem hafa tjáð sig með einhverjum hætti í fjölmiðlum. Þeir hafa ekki látið skoðun sína í ljós í þinginu. Er þessi hógværð þingmanna Vinstri grænna nokkuð óvenjuleg og er kannski nýr stíll á þeim bæ að þingmenn Vinstri grænna vilji bíða og sjá og skoða málin vandlega áður en þeir tjá sig? Það er af sem áður var.

Ég vildi nota þetta tækifæri til að þakka ráðherranum fyrir yfirlýsingu sem kom fram um að þingmenn mundu fá aðgang að listum yfir gögn þannig að þeir gætu kallað eftir þeim gögnum sem máli skipta. Ég held að það sé mikilvægt að þetta komi fram. Trúlega er fátt í þessu sem kemur á óvart (Forseti hringir.) en hins vegar er mikilvægt að þingmenn geti metið sjálfir hvaða gögn þeir vilja fá í hendur og að embættismenn, hversu ágætir sem þeir kunna að vera, séu ekki í þeirri stöðu að skammta þau.