137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Mig langar að taka undir orð hv. þm. Illuga Gunnarssonar varðandi þann aðdraganda sem varð í morgun að þessum fundi. Það er náttúrlega með ólíkindum að við skulum þurfa að búa við þessa óvissu og þann hringlandahátt sem virðist vera á störfum þingsins og við hljótum að fara fram á það að fastar verði haldið um hlutina. Það gengur ekki að þingfundi sé frestað með nokkurra mínútna eða sekúndna fyrirvara og þingflokksformenn fái síðan fundarboð með nokkurra mínútna fyrirvara þar sem á að fara að ræða stöðu dagsins, breytingar á dagskrá og eitthvað slíkt.

Ég vil bara koma því á framfæri að það gengur ekki að hafa þennan hátt á. Hér eru allir að reyna sitt besta og því getur forseti ekki boðið þingmönnum upp á þau vinnubrögð sem hér eru. Við krefjumst þess að þessu verði kippt í liðinn.