137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:04]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi lýsa mig ósammála þeim sem töluðu á undan mér. Ég er mjög ánægður með fundarstjórn forseta sem hélt hér mjög vel á málum í morgun og lét störf utanríkismálanefndar njóta vafans þegar verið var að afgreiða þetta mál, eitt stærsta mál Íslandssögunnar, út úr utanríkismálanefnd. Það var fullkomlega eðlilegt að forseti frestaði fundi til að það léki enginn vafi á því að ekki væri verið að reka nefndina til að afgreiða álitið út á einhverjum mínútum og gefnar 90 mínútur (Gripið fram í.) í viðbót til að klára, ljúka vandvirknislega unnu nefndaráliti og ganga úr skugga um að nefndin óskaði ekki eftir lengri tíma til að ganga frá sínum álitum. Þetta var mjög eðlileg og góð fundarstjórn þar sem góð vinnubrögð og nefndarstörf voru látin njóta vafans umfram það að þingfundur hæfist kl. 11.30 en hann hefst núna kl. 12. Þess vegna hlýtur það að vera þakkarvert að forseti skuli ganga fram af þessari nærgætni og varfærni gagnvart nefndarstörfum.