137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að hæstv. forseta er nokkur vorkunn. Það er þannig að öll helstu og stærstu mál ríkisstjórnarinnar eru í algeru uppnámi og aðstæður í kringum þau mál breytast ekki dag frá degi, ekki frá klukkustund til klukkustundar heldur frá mínútu til mínútu og mér liggur við að segja sekúndu til sekúndu. Það var auðvitað þannig í morgun að þingmenn voru að undirbúa sig undir að ganga til þingfundar samkvæmt þeirri dagskrá sem fyrir lá og ekki hafði verið gefið til kynna neitt annað þegar menn skyndilega og á hlaupum frétta að ákveðið hafi verið að gerbreyta þessu. Ástæðan er ekki sú að hæstv. forseti sé ekki að reyna að leggja sig fram um að stýra þingfundum eins vel og hægt er en vandinn sem hæstv. forseti stendur frammi fyrir er einfaldlega sá að aðstæðurnar í ríkisstjórnarherbúðunum eru með þeim hætti að þar er hver höndin upp á móti annarri. Þar vita menn ekki hvernig ljúka eigi helstu málum og tilkynningar um það hvernig eigi að stjórna þinginu berast utan úr bæ frá einstökum hæstv. ráðherrum sem greina frá því að það sé niðurstaða þeirra að ljúka eigi þinginu á tilteknum dögum og á tilteknum tímum. Það er ekki þannig sem þinginu er stjórnað. (Forseti hringir.) Þingið hefur forræði sinna mála og þetta eru auðvitað frekleg afskipti af hálfu þeirra ráðherra eins og þeir hafa hegðað sér á síðustu dögum.