137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska eftir að forseti noti sömu viðmið og vinnubrögð á stjórnarandstöðu og stjórn þegar verið er að ræða um fundarstjórn forseta.

Varðandi það sem er hér til umræðu þá er vitanlega augljóst að það er „panik“ í gangi, það er „panik“ hjá Samfylkingunni því að þau óttast að þau séu að missa tökin á því að halda utan um þingið sem þau hafa reynt að gera með mjög áberandi og grófum hætti að mínu viti. Það er það sem er í gangi. Það var ekki fundur í utanríkismálanefnd þegar þingfundi var frestað og það hlýtur að vera ámælisvert að vinna með slíkum hætti, að stilla þinginu upp, boða til fundar og afboða hann vegna þess að það er pantað af nefndarformanni einhverrar nefndar. Verður það við lýði hér eftir að þingfundi sé frestað til að koma inn einhverjum málum þegar formönnum nefnda hentar svo, þegar þeir álíta að þeir hafi ekki klárað mál? Ég spyr forseta að því. Þetta er mál sem við verðum að taka upp og hugsa upp á nýtt því að það gengur ekki að hafa þingið í þessari stöðu.