137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það gefur auðvitað augaleið sem hér var sagt að þetta eru óvenjulegir tímar og það hefur svo sem ekki leynt sér á þinginu í sumar. En það er ekki endalaus afsökun fyrir því sleifarlagi og forustuleysi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem kemur fram í hverju málinu á fætur öðru og meðal annars í tveimur af stærstu málunum sem við erum að afgreiða á sumarþingi.

Það blasir við öllum hvílíkt uppnám er í stjórnarliðinu núna vegna afgreiðslunnar á ESB-málinu. Við vissum að stjórnarliðið gekk mjög klofið til þeirrar umræðu en það sem síðan hefur verið að gerast er auðvitað enn þá verra en nokkurn grunaði. Við skulum átta okkur á því að núna erum við að ganga til afgreiðslu á einu stærsta máli sem Alþingi hefur fengist við, þ.e. spurninguna um aðildina að Evrópusambandinu. Það er auðvitað ekki nokkur bragur á því að það gerist með þeim hætti sem við höfum séð á undanförnum klukkustundum þegar stjórnarliðið hefur verið í algeru uppnámi, menn hafa verið að blása af fundi, kveðja til fundar og reyna að ná einhverri niðurstöðu (Forseti hringir.) með mjög undarlegum hætti og það hefur svo komið fram í því að þingið hefur verið óstarfhæft það sem af er morgni.