137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

bresk skýrsla um Icesave.

[12:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í vikunni greindi Morgunblaðið frá því að út hefði verið gefin skýrsla af breskri lögmannsstofu sem lægi hjá íslenskum stjórnvöldum og væri efnislega á þá leið að Íslendingar væru ekki skuldbundnir hvorki að lögum eða að þjóðarrétti, ekkert hefði gerst í viðræðuferlinu fram í mars sem hefði skuldbundið íslensk stjórnvöld til að skrifa undir Icesave-samningana og hvatt var til að farið væri nánar ofan í lögfræðileg álitaefni tengd Icesave-viðræðunum. Þetta kom þinginu á óvart. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og reyndar ríkisstjórnin öll skuldi þinginu afsökunarbeiðni vegna þessa máls ef ekki bara vegna þess að skjalinu sem slíku var haldið til hliðar heldur líka vegna þess og ekki síður að viðbrögð hæstv. ráðherra, þar með talið hæstv. utanríkisráðherra, voru á þá leið að þetta hefði svo sem ekki skipt neinu máli, að það hefði ekkert nýtt komið fram í skjalinu og þetta hefði efnislega engu nýju bætt við málið.

Maður hlýtur að spyrja sig þegar ráðherrar leyfa sér að bregðast við með þessum hætti, þegar þinginu hefur verið haldið frá mikilvægum gögnum í jafnmiklu grundvallarmáli eins og Icesave-málið er, hvort hæstv. ráðherrar séu þá almennt þeirrar skoðunar að það sé í lagi fyrir þá að ritskoða það sem eigi að fara fyrir þingið og þeir geti lagt sitt sjálfstæða mat á þau gögn sem þangað eigi að rata. Það er ekki þannig. Þetta eru svik við þingið, þetta er trúnaðarbrestur við þingið og í stað þess að bera blak af efnisinnihaldi skjalsins ætti hæstv. ráðherra að standa hér upp og biðja þingið afsökunar á þessu hvort sem hann vissi af skjalinu eða ekki og líka þeirri skoðun sinni afdráttarlaust að skjalið hefði átt að koma fyrir þingið.