137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

bresk skýrsla um Icesave.

[12:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að þetta skjal hefði átt að vera í þeim gagnapakka sem var lagður fyrir þingið. Ég hef skýrt það út fyrir utanríkismálanefnd frá mínum sjónarhóli og mínum bæjardyrum hvernig á því stóð að svo var ekki. Ég get í sjálfu sér gert það líka hér. Ég vil líka segja að ég tel það mér ekkert ofvaxið að biðja þingið forláts á því. Í utanríkisráðuneytinu höfum við lagt gríðarlega mikið kapp á það að finna öll gögn og leggja öll gögn fyrir sem skipta máli. Hv. þingmaður segir að þetta skjal hefði átt að liggja fyrir og ég er honum bara sammála um það, það hefði átt að liggja fyrir. Ég er honum hins vegar ósammála um að í þessu skjali, á þeirri 1½ blaðsíðu þar sem um þetta mál er fjallað komi það fram sem skiptir sköpum. Ég tel að svo sé ekki. Þar er um að ræða að höfundarnir eru ósammála lagarökum Breta og Hollendinga og þeir segja að þar ríki vafi um hvernig beri að túlka innstæðutryggingartilskipunina og þeir segja að það séu rök með og á móti. Þetta er rétt hjá höfundum en það er ekki nýtt. Hvers vegna? Það hefur komið fram með mun sterkari hætti áður af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar og það hefur m.a. komið fram í öðru lögfræðiáliti, líka frá alþjóðlegri lagaskrifstofu, Schjödt held ég að hún heiti. Sú skýrsla liggur fyrir í gagnapakkanum sem er úti í utanríkismálanefnd. Ég held að hún sé nr. 29 eða 30. Það er af þeim ástæðum sem ég held því fram að upplýsingarnar sem þarna koma fram skipti ekki sköpum í málinu og ég held því fram að það hafi legið fyrir áður í miklu rökstuddara máli en kemur þarna fram. Að því leytinu til er ég ósammála hv. þingmanni en ég er honum sammála um að þetta gagn hefði átt að vera.