137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

uppbyggingaráform í iðnaði.

[12:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mig langar að gera tilraun til þess að stinga höfðinu þó ekki væri nema í stundarkorn upp úr hrúgu allra þeirra leiðindamála sem blasa við þjóðinni og þinginu og spyrja um uppbyggingaráform á komandi árum, spyrja um sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar. Það hefur afskaplega lítið spurst til sóknaráforma, hvernig við ætlum að auka útflutningstekjur á Íslandi, auka gjaldeyristekjur, skapa meiri hagvöxt.

Forsenda spurningar minnar er ákvörðun G-8 ríkjanna í gær sem greint var frá í fréttum í gærkvöldi að þau hygðust draga saman í útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 50% fyrir árið 2050 miðað við 1990 og að iðnríkin sjálf ætli að taka á sig 80% skerðingu í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Fjölmörg ríki hafa séð nákvæmlega í þessari ákvörðun og í þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem munu eiga sér stað af þessu tilefni mikil sóknarfæri. Ég nefni Dani í því sambandi sem hafa lagt mikla áherslu á uppbyggingu grænnar tækni og grænnar orku á undanförnum árum og fá núna útflutningstekjur upp á 1.500 milljarða á ári hverju samkvæmt nýjustu tölum sem er jafnmikið og þeir fá af matvælaframleiðslu. Útflutningstekjur jukust um 19% frá 2007–2008 í Danmörku með þessari áherslu. Þetta er danska leiðin. Við höfum líka dæmi af finnsku leiðinni þar sem Finnar staðsettu sig í upphafi samskiptabyltingarinnar með ákveðnum hætti þannig að þeir reistu endurreisn síns efnahagskerfis á því að vera í fararbroddi í samskiptatækni. Nú er það fyrirliggjandi að þessar þjóðfélagsbreytingar munu verða á komandi árum. Það verður gríðarleg krafa eftir grænni orku, grænni tækni, grænum iðnaði. Og það væri sorgarsaga ef Íslendingar næðu ekki að vera í fararbroddi með alla þá hreinu ímynd sem við höfum, með alla þá hreinu orku sem við höfum, með allan þann mannauð sem við höfum, ef við næðum ekki að skapa útflutningstekjur í þessum þjóðfélagsbreytingum. Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Er eitthvað fyrirliggjandi sem heitir íslenska leiðin í þessu sambandi? Er einhver vinna í gangi í ráðuneytinu (Forseti hringir.) til að setja okkur þarna í fararbrodd?