137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

uppbyggingaráform í iðnaði.

[12:32]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka innilega fyrir þessa fyrirspurn. Það er ánægjulegt að fá að ræða þessi mál hér vegna þess að þetta hittir akkúrat inn á þá vinnu sem er undirliggjandi í allri stefnumörkun og allri ákvarðanatöku okkar í uppbyggingu til framtíðar litið hér á landi.

Það sem skiptir máli hérna og þar sem hv. þingmaður spyr hvort við ætlum ekki að vera í fararbroddi á Íslandi í þessari grænu leið í atvinnuuppbyggingu, þá má segja að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er mjög skýrt kveðið á um það að mörkuð verði heildstæð atvinnustefna, að mörkuð verði sóknaráætlun fyrir hvern einasta landshluta á Íslandi og undirliggjandi í því er græn atvinnusköpun. En það er ekki nóg að marka stefnu og meðan verið er að marka þessa stefnu sem er í fullum gangi núna er ríkisstjórnin að vinna að fjölmörgum verkefnum til atvinnuuppbyggingar hér á landi sem flokka má sem grænan iðnað. Til að mynda erum við að vinna að gerð fjárfestingarsamnings sem felur í sér ívilnanir til handa fyrirtæki sem ætlar sér að byggja gagnaver. Ég var að undirrita samning við fyrirtækið Becromal til að örva fjárfestingar hér á landi sem flokkast líka undir grænan hátækniiðnað. Að þessu erum við að vinna af heilum hug og fullum krafti og það er ætlun okkar að halda því áfram.

Annað sem ég vil líka nefna við hv. þingmann er að við höfum sett okkur mjög metnaðarfull markmið í losun gróðurhúsalofttegunda. Þar höfum við forskot vegna þess að mikið af okkar orkuöflun er endurnýjanleg. Það er líka í gangi núna í ráðuneyti iðnaðarmála vinna við svokallaða orkuskiptaáætlun fyrir bílaflota landsins þar sem unnið er að heildstæðri stefnumörkun þar sem settir verða mílusteinar um það hvernig við ætlum að koma bílaflotanum yfir í nýtingu á innlendum orkugjöfum, endurnýjanlegum og úr lífmassa.