137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

strandveiðar.

[12:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Varðandi framkvæmd strandveiðanna þá get ég hughreyst hv. þm. Illuga Gunnarsson með því að þær ganga afar vel. (Gripið fram í.) Ég skal bara rekja nokkur atriði til upplýsinga.

Gefin hafa verið út samtals 435 leyfi til strandveiða. Mikið hefur verið að gera hjá Fiskistofu sem hefur sýnt mikinn dugnað við að afgreiða leyfin hratt. Það er búið að veiða líklega um 640 tonn af 4.000 tonna heildarkvóta. Það er alveg rétt að þetta hefur skipst misjafnlega á svæði. Á svæði A, þ.e. á norðvestursvæðinu, hafa verið gefin út 168 leyfi og búið er að veiða 52% af kvótanum fyrir júní/júlí. Á svæðinu fyrir norðan land hafa verið gefin út 63 leyfi og þar var búið að veiða 10% af kvótanum fyrir júní/júlí. Á svæðinu fyrir austan land hafa verið gefin út 77 leyfi og búið að veiða 17% af kvótanum fyrir þennan tíma. Og á svæðinu fyrir Suður- og Suðvesturlandi hafa verið gefin út 117 leyfi og þar er búið að veiða 15% af því sem þar var get ráð fyrir að veiða í júní/júlí.

Þetta hefur gengið mjög vel. Ég hafði samband í dag við framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, Örn Pálsson, sem sagði að það væri mikill metnaður hjá þeim sem stunda þessar veiðar að láta þær ganga vel, fara nákvæmlega eftir öllum þeim reglum sem þar hafa verið settar. (Forseti hringir.) Það væri almennt mjög mikil ánægja með framkvæmd þessa, enda væri aginn sterkur og góður og allir kepptust þar við að fylgja reglum. (Forseti hringir.) Athugasemdir hv. þingmanns, frú forseti, eru því algerlega út í hött.