137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

strandveiðar.

[12:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Margur heldur mig sig í þessum efnum. En það er ekki ætlun mín, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson telur sig mundu verða að gera, að láta undan kröfum í þessum efnum. Þarna eru settar mjög ákveðnar og sterkar reglur, það er tiltekinn afli sem er ákveðinn til þessara veiða og hann stendur.

Ég get líka upplýst hv. þingmann um það að óttinn við brottkast í þessum veiðum eða að menn komi ekki með allan veiddan afla að landi virðist ástæðulaus. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef kemur mjög fjölbreyttur afli úr sjó. Til dæmis hvetur fyrirtæki á Flateyri, Eyraroddi, til þess að fá báta í viðskipti. (Gripið fram í.) Þetta gengur mjög vel og ég vonast bara til, frú forseti, að hv. þingmaður taki gleði sína með smábátasjómönnum og með þeim sem upplifa núna opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi sem flokkur hv. þingmanns hefur staðið að á undanförnum árum. (IllG: Þetta er vont fyrir Ísland.) Þetta er gott fyrir Ísland.