137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

reikniaðferð í Icesave-samningnum.

[12:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við í fjárlaganefnd höfum fjallað um Icesave-málið og fjölmörg gögn sem eru þar til skoðunar. Álitaefnin eru líka fjölmörg og það var dapurlegt að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra lýsa því yfir að álit bresku lögmannsstofunnar skipti engu máli, (Utanrrh.: Ég sagði það ekki.) ef ég skildi hann rétt.

Mig langar til að spyrja hann út í annað mál ekki síður mikilvægt. Þannig er að færustu lögmenn landsins hafa farið yfir Icesave-samninginn og rekist á það að í samningnum er sérstakt ákvæði sem áréttar að sjóðirnir munu njóta jafnræðis þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans, þ.e. fái upp í kröfur sínar í jöfnum hlutföllum. Það er fullyrt að þetta sé í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögum sem almennt hefur verið uppi.

Nú er það reyndar þannig að þetta er þveröfugt við þá túlkun sem hefur gilt í íslenskum lagarétti og það leiðir til þess að útreikniaðferðin sem er notuð er röng, virðist vera svo, skeikar um 50–100 milljarða, kannski meira. Ef þetta er þannig eins og þessir færu lögmenn og virtu á Íslandi benda á, ef það er rétt að menn hafi gert þessi stóru mistök við samningagerðina, að þeir hafi ekki verið með íslenskan lagarétt á hreinu, er þá ekki kominn forsendubrestur við það að Alþingi samþykki ríkisábyrgð á þessa samninga?