137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

reikniaðferð í Icesave-samningnum.

[12:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Nú þekki ég ekki það lögfræðiálit sem hv. þingmaður vísar til. Eins og ég skil á máli hans þá er það gagn sem fram hefur komið í umfjöllun hv. fjárlaganefndar. Það er auðvitað Alþingis að lokum að taka ákvörðun um það hvort það vill og treysti sér til að samþykkja Icesave-samninginn eða ekki. Ég hef sagt það eitt í þessum sal um þá umræðu alla að þingið verði að gefa sér nægilega góðan tíma til að skoða út í hörgul öll þau gögn sem fram koma. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Hér er kallað: Heyr, heyr. En það hefur líka komið fram af hálfu hæstv. fjármálaráðherra í umræðum um Icesave að ríkisstjórnin leggi áherslu á að þingið fái allt það ráðrúm sem þarf til að skoða gögnin.

Nú hefur hv. þingmaður upplýst að komið hafi fram sterkar efasemdir um reikniaðferðir sem beitt var og þá er það eitthvað sem fjárlaganefnd þarf að skoða rækilega og fá þá álit á. En það er fyrst og fremst fjárlaganefnd sem þarf að komast að því. Ég get ekki sagt hv. þingmönnum hvort þetta sé rétt eða rangt. Það er þá nefndin sem væntanlega gefur sitt álit til þingsins og leyfir þá mér og öðrum að taka afstöðu til þess hvort um forsendubrest sé að ræða.