137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur einmitt verið ákafur talsmaður þess að hvetja til þess að menn kæmust hugsanlega í þetta fé án hirðis. En ég verð að segja að þó að það hafi gengið á ýmsu hjá kaupfélögunum og hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga þá veit ég ekki til þess að sú hugmyndafræði hafi sett Ísland á hausinn eins og hugmyndafræðin um nýfrjálshyggjuna og kapítalismann virðist vera á góðri leið með að gera. Þar virtust a.m.k. vera settir þeir rammar að þau félög og þau rekstrarform höfðu hreinlega ekki tækifæri til þess eins og reyndist hins vegar vera raunin með hlutafélög og þá hugmyndafræði sem hefur rekið hinn frjálsa markað áfram og ekki bara á Íslandi, ég held að ég geti fullyrt að menn séu alls staðar úti um allan heim í miklum erfiðleikum út af því að þeir voru að elta aurinn út um allt. Ég tel alveg tvímælalaust að hægt sé að setja þannig ramma að hægt sé að tryggja það að fólk geri góða hluti og við eigum að setja þannig löggjöf sem hvetur til þeirrar hugsunar og þeirrar hugmyndafræði í samfélaginu. Ég tel að við höfum tækifæri til þess núna en því miður virðumst við vera allt of föst í því enn þá að við eigum að halda áfram að græða sem allra mest og sérhyggjan eigi að ráða öllu frekar en samhyggjan.