137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hugtakið nýfrjálshyggja er eitthvað sem ég kannast ekki alveg við hvað er (Gripið fram í.) en það virðist vera sú misnotkun sem menn hafa á hlutafélagaforminu með því að hafa krosseignarhald og raðeignarhald og lána sjálfum sér og annað slíkt sem er ekki eðlileg hugmyndafræði. Það er misnotkun á kerfinu og ég held að ekki sé rétt að dæma heilt kerfi út frá misnotkuninni.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er þetta: Við höfðum kaupfélög hér á landi, við höfðum Samband íslenskra samvinnufélaga og Landsbankinn varð fyrir miklu tjóni þegar Sambandið hrundi og það áfall varð ansi mikið. Kom hv. þingmaður með einhverjar hugmyndir í nefndina um það hvernig hægt er að hindra að slíkt gerist aftur með þetta fé sem enginn á? Vegna þess að eins og ég hef margoft nefnt þá er alltaf einhver sem stýrir því fé sem enginn á. Sá sem stýrir því getur verið velviljaður og samfélagslega sinnaður, hann getur líka farið að hugsa um eitthvað annað, t.d. hvernig hann græði á því að stýra þessu fé, að hann gæti keypt í einhverju hlutafélagi fyrir þetta fé sem enginn á og geti þá stjórnað því hver verði forstjóri þess hlutafélags, t.d. sonur hans eða dóttir eða eitthvað slíkt.

Hvernig ætlar hv. þingmaður að koma í veg fyrir þau mistök sem menn hafa séð á einmitt þessu formi bæði hjá sparisjóðunum, hjá stórum hlutafélögum sem urðu eins konar fé án hirðis, og hjá kaupfélögunum og Sambandinu og mjög víða, líka í skattfé og líka hjá sveitarfélögum? Hvernig ætlar hv. þingmaður að búa til nýtt og gott mannkyn?