137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu nokkuð merkilegt mál. Mig langar til þess að fara aðeins yfir söguna, hvernig sú staða kom upp í sparisjóðakerfinu sem verið er að glíma við og ætla ég aðeins að tala um afleiðingarnar af því.

Það ástand sem við búum við núna á rætur sínar að rekja til júlímánaðar árið 2007. Þá fór af stað orðrómur í New York um að lausafjárstaða Bear Stearns væri ekki ákjósanleg og að hugsanlegt væri að tveir vogunarsjóðir sem þeir ráku stæðu ekki jafntraustum fótum og menn höfðu haldið. Þann 4. júlí árið 2007, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, skaust svokallað CDS-álag eða tryggingarálag á Bear Stearns upp og fór upp í að mig minnir 2,4% sem er gríðarlega hátt.

Það markar í raun og veru upphafið að þeirri fjármálakreppu sem við glímum við — sem heimurinn glímir við enn þá. Í ágúst var þessum tveim sjóðum sem ég minntist á áðan lokað og markaðstraustið fór að dala. Í kjölfarið á því fór að bera á lausafjárþurrð, sérstaklega hjá fjármálastofnunum sem voru í einhverjum skilningi á jaðarsvæðum eða jaðargreinum og þar með talið hjá íslensku bönkunum og íslenska fjármálakerfinu í heild sinni.

Þannig var komið um áramótin 2007/2008 að svokölluð heildsölufjármögnun var orðin ómöguleg fyrir íslenska bankakerfið sem leiddi til þess að farið var út í ýmsar tilfæringar til þess að fá fjármögnunina á bankana m.a. með því að búa til gjörninga sem hægt var að nota í endurhverfum viðskiptum í evrópska seðlabankanum og reyndar þeim breska líka. Ástandið versnaði um veturinn og vorið 2008 og það er óhætt að segja að um sumarið 2008 hafi verið komið lausafjárstopp á íslenska fjármálakerfið, það var ekki nokkur leið að útvega lausafé frá útlöndum eftir hefðbundum leiðum og fóru menn algjörlega að treysta á það sem er kallað private placement eða að fá fjármagn hjá einkaaðilum og fara fram hjá markaðnum erlendis.

Ástandið versnaði síðan enn og hrakaði jafnframt erlendis, þó ekki jafnhratt og hérna. Síðan varð sá atburður þann 15. september 2008 sem líkja má við árásina á tvíburaturnana í New York 11. september 2002 fyrir fjármál heimsins, þá fór bandaríski bankinn Lehman Brothers á hausinn. Það var ákvörðun sem tekin var af bandaríska fjármálaráðuneytinu og bandaríska seðlabankanum, að láta reyna á það að láta einn banka fara á hausinn án þess að koma að björgun hans. Það vildu menn gera til þess að sýna fram á að bandarísk stjórnvöld liðu það ekki að upp byggðust svokölluð moral hazard-vandamál eða freistnivandamál í ameríska bankakerfinu.

Það er kannski óþarfi frá því að segja að þetta voru mjög stór mistök sem gerð voru þarna og menn viðurkenna það almennt núna að þetta hafi verið sú stund þar sem fjármálakerfi heims fór úr því að vera í verulegum vandamálum í það að fara fram á brún hengiflugsins. Um mánaðamótin september/október á síðasta ári og fyrstu tvær vikurnar í október horfði fjármálakerfi heimsins ofan í djúpið og hefur aldrei verið jafnnálægt því að hrynja og á þeim tíma en það var allt gert til þess að bægja þessari hættu frá og sem betur fer tókst það að mestu leyti. En eins og við vitum varð Ísland fórnarlamb í þessum hildarleik og viðskiptabankarnir þrír voru yfirteknir af hinu opinbera með neyðarlögunum þar sem bönkunum var skipt upp í nýja banka og gamla banka eins og alþjóð er kunnugt.

Mistökin sem gerð voru varðandi Lehman Brothers voru að láta svokallaðan prime broker fara á hausinn, þ.e. að láta greiðslumiðlunarbanka sem þjónaði mjög stóru hlutverki fyrir hið alþjóðlega fjármálakerfi og sérstaklega í nýmarkaðsríkjunum og löndum eins og Íslandi, löndum sem ekki voru á stóru myntsvæði. Allt fjárstreymi inn í þessi lönd stöðvaðist. Með falli Íslands féll Ungverjaland strax í kjölfarið og síðan eitt nýmarkaðsríkið af öðru.

Það sem gerðist tengist beint sparisjóðunum. Þegar bankarnir fara á hausinn verða svokölluð bankabréf verðlaus eða því sem næst og eignir greiðslumiðlunarbanka sparisjóðanna, Icebank, sem síðar var skírður Sparisjóðabankinn, strokuðust út. En Icebank hafði einmitt verið í þeim bisness, getum við sagt, að kaupa skuldabréf af íslensku bönkunum, fara með þau í Seðlabankann, nota þau þar í endurhverfum viðskiptum og fá peninga út úr Seðlabankanum sem síðan voru notaðir til þess að borga fyrir bréfin.

Icebank varð þarna einskis virði, eigið fé gufaði upp þar. Jafnframt var annað fyrirtæki, Exista, sem tengist bönkunum mjög náið. Mjög stór hluti eigna bankanna varð jafnframt verðlaus, þ.e. hlutirnir í Kaupþingi og í öðrum fjármálastofnunum urðu verðlausir eða því sem næst. Sögulega séð er eignarhlutur sparisjóðanna í þessum stofnunum til kominn þegar sparisjóðirnir fjárfestu í Kaupþingi hér áður fyrr. Sparisjóðirnir töpuðu því gríðarlega miklu eigin fé og það tap varð til af kerfishruni, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum sem ég hef rakið nokkuð vel hér hvernig kom til.

Fjármálakreppan hefur leitt til þess að þurft hefur að bjarga mörgum fjármálastofnunum í heiminum. Ástæðan fyrir því að fjármálastofnunum er bjargað er sú að þær eru ekki venjuleg fyrirtæki heldur eru þær olía fyrir efnahagslífið. Ef lokast fyrir hringrás peninganna, þ.e. ef fjármálafyrirtækin lokast hrynur það einfaldlega sem við köllum raunhagkerfið og við hverfum aftur á einhvers konar steinöld.

Við það að fjármálastofnunum og þá sérstaklega bönkum var bjargað frá þessu hruni þótti eðlilegt að hafa það prinsipp, og það gilti bæði erlendis og hér á Íslandi við yfirtökuna á Glitni, að hluthafar yrðu strokaðir út, þ.e. að ekki væri verið að bjarga hluthöfum heldur væri verið að bjarga fjármálakerfinu.

Prinsippið í þessu frumvarpi er að hér er verið að bjarga sparisjóðakerfinu, ekki stofnfjáreigendum. Það er byggt á grundvallarmisskilningi vegna þess að eðli íslensku sparisjóðanna er annað en banka og hefðbundinna fjármálastofnana. Stofnfé er þeim eiginleikum búið að það nær ekki að endurspegla eigið fé sparisjóðanna heldur nær það eingöngu yfir mjög lítinn hluta ef eðlilegir varasjóðir eru þar inni og að stofnhlutir, þó að undir lokin þegar hlutafjárvæða átti sparisjóðina, hafi verið farnir að ganga kaupum og sölum á mun hærra verði en áður hafði verið. Stofnfjáreign er ekki í eðli sínu „spekúlatíf“ eign heldur kaupa menn sig inn í sparisjóði í gegnum stofnfé til þess að halda á því, jafnvel alla ævina. Það er gert til þess að styðja við fjármálastofnun í því byggðarlagi sem stofnfjáreigendurnir eiga heimili. Það er gert til þess að styðja við atvinnulífið og bæta upp fyrir þann þekkingarskort — við getum orðað það sem svo — sem er á milli stórra banka sem eingöngu liggja með útibú og þeirra sem eingöngu eru að hugsa um hagsmuni byggðarlagsins. Það er eðlilegt að það að færa niður stofnfé eigi ekki að miða að því að bjarga stofnhluthöfum heldur að bjarga sparisjóðunum sem slíkum, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti réttilega á.

Við getum aftur á móti spurt okkur: Hvað er sparisjóður þar sem ríkið á allt stofnfé? Þá eru markmiðið og tilgangurinn með sparisjóðnum horfinn og hann er orðin einhvers konar fjármálastofnun sem er úr tengslum við upphafleg markmið. Það sem er mjög mikilvægt, og hlustaðu nú, hæstv. utanríkisráðherra, (Gripið fram í.) að þegar verið er að bjarga fjármálastofnunum sé ekki verið að búa til það sem er kallað zombie bank, eða einhvers konar uppvakning sem líður áfram fölur án þess að hafa nokkurn tilgang. Það er það sem gerist ef stofnfjárhluthöfum er hent út úr bönkunum og ríkið eignast þá.

Spurningin er því: Hvernig getum við komið í veg fyrir að það gerist? Við getum öll verið sammála um að það var ekki stofnfjáreigendum að kenna að eigið fé hvarf úr þessum stofnunum, það er var einfaldlega fjármálakreppunni að kenna og sögulegum ástæðum þess að þessar stofnanir áttu í einhverjum félögum á Íslandi, þ.e. hvernig hægt væri að bjarga sparisjóðunum, varðveita þá og tilgang þeirra en um leið halda utan um þessa mikilvægu „grundvallarfúnksjón“ sem eru stofnfjáreigendurnir sem eru í byggðarlaginu. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bannar mér alltaf að koma með lausnir en ég ætla samt að koma með eina: Ég mundi vilja að það mætti ekki færa stofnfé niður í lægri upphæð en nafnverð 1, að sett yrði víkjandi lán inn í þessar stofnanir til þess að bjarga þeim frá því að fara á hausinn og það yrði gert með því skilyrði að enginn arður yrði borgaður út fyrr en ríkið hefði fengið allt sitt greitt. Þannig höfum við varðveitt stofnunina í byggðarlaginu, þannig höfum við haldið inni stofnfjáreigendunum og þannig höfum við tryggt að (Forseti hringir.) ríkið fái sitt til baka. Þannig forðumst við að búa til það sem ég kallaði áðan zombie bank.