137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér við 3. umr. veigamikla breytingu á sparisjóðakerfinu. Ég vil byrja á því að undirstrika að sparisjóðir hafa verið mjög mikilvægir á Íslandi. Þeir hafa sinnt nærþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki í sínu sveitarfélagi, jafnt hér á höfuðborgarsvæðinu sem annars staðar. Velvild almennings í þeirra garð hefur verið mjög mikil og eru þeir þess vegna mjög verðmætir. Stóru bankarnir sem áður voru ríkisbankar misstu allan áhuga á smábisness og vildu bara vera í miklum viðskiptum og stórum en höfðu ekki mikinn áhuga á nærþjónustunni við almenning og smáfyrirtæki. Þar fóru sparisjóðirnir því með mjög mikilvægt hlutverk.

En hjá sparisjóðunum kom þó fram krafa um almenna þjónustu varðandi allt. Þeir sem áttu viðskipti við sparisjóð á Bolungarvík eða hvar sem var vildu geta keypt hlutabréf í Tókíó og lagt fyrir í verðbréfasjóðum og annað slíkt. Það neyddi sparisjóðina til þess að taka upp mjög náið samstarf til þess að geta veitt þá þjónustu sem viðskiptavinurinn krafðist.

Ef maður lítur á söguna þekki ég það nokkuð vel að sparisjóðirnir keyptu Kaupþing 1986 af Silfurþingi og síðan keypti SPRON sífellt stærri hlut í Kaupþingi af öðrum sparisjóðum sem vildu selja. Og þar sem það réð ekki lengur við það stofnuðu menn Meið sem eignaðist hlutabréf SPRON í Kaupþingi. Menn gengu lengra og létu Kaupþing meira að segja kaupa í Meiði og Meið kaupa í Kaupþingi þannig að það myndaðist mjög sterkt krosseignarhald þar á milli. Seinna var þetta fyrirtæki nefnt Exista og varð mjög stórt á tímabili.

Eignir sparisjóðanna í Meiði og Exista og seinna í Kaupþingi urðu til þess að félögin sýndu sífelldan hagnað vegna þess að hlutabréf í þessum félögum hækkuðu og hækkuðu en í reynd voru flestir eða mjög margir með neikvæðan rekstrarafgang, þ.e. með tap af rekstri. Þau tóku ekki á þeim vanda vegna þess að verð hlutabréfa hækkaði. Það er dálítið einkennilegt, ef menn hugsa um samfélagslega ábyrgð sparisjóðanna og þetta „göfuga“ fé þeirra, að Fjármálaeftirlitið skuli ekki hafa gert athugasemd við það að féð skuli hafa verið fjárfest með eins áhættusömum hætti og síðar kom í ljós þar sem það var bundið í tveim, þrem risastórum hlutafélögum sem vissulega var mikil áhætta og það máttu menn vita.

Ég hef gagnrýnt fyrirbæri sem ég hef kallað „fé án hirðis“, þ.e. það fé sem enginn á og það er sérstaklega áberandi í sparisjóðunum. Það er reyndar til í lífeyrissjóðunum líka, þ.e. fé sem einhver stýrir en enginn er beinn eigandi að. Það er líka hjá ríkissjóði og víðar. Það er reyndar ekki án hirðis, það er hirðir að því en sá hirðir hefur kannski önnur sjónarmið en góði hirðirinn og vill ekki endilega ná fram arðsemi og öryggi fyrir fjárfestinguna heldur einhverjum öðrum markmiðum. Það kom fram í sparisjóðunum, ég leyfi mér að segja það. Það var mjög sterkur valdastrúktúr og mikil valdabarátta innan sparisjóðanna og hefur alla tíð verið þó að í rauninni ætti enginn það mikla fé nema í gegnum stofnféð og þá miklu minna. Hið mikla fé sem safnaðist þarna var sem sagt tæki til valda.

Upphaflega voru sparisjóðirnir stofnaðir með ábyrgðum. Þeir voru ekki með stofnfé heldur lögðu menn fram ábyrgðir. Þegar SPRON var stofnað í Reykjavík skilst mér að það hafi verið vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að stöðva fólksflutninga til Reykjavíkur á þeim tíma, árið 1937, með því að banna ríkisbönkunum að lána til íbúðabygginga í Reykjavík. Það var leiðin á þeim tíma, mjög undarleg í okkar augum. Það var gert til þess að fólkið færi nú ekki að flytja úr sveitunum til Reykjavíkur. Þá tóku iðnaðarmenn sig til, sem urðu þá atvinnulausir eða misstu verkefni, stofnuðu SPRON og lögðu til þess ábyrgðir. Það var sem sagt hreint bisness-sjónarmið á bak við það. Þeir vildu fá verkefni og lán og ætluðu að láta Reykvíkinga leggja inn peninga í sparisjóðinn sinn og fá það svo að láni til að byggja íbúðir handa þessum sömu Reykvíkingum. Það gekk eftir og heilu hverfin voru byggð hérna með þeim hætti. SPRON lánaði peninga til verksins, sem voru sem sagt innlán Reykvíkinga, og kom þannig í veg fyrir áætlanir ríkisstjórnarinnar að stöðva flutning á fólki til Reykjavíkur með því að hindra íbúðabyggingar. Það er sagan á bak við SPRON.

Svo voru sett lög á Alþingi um að það mætti hlutafjárvæða sparisjóði. Það þótti mér alltaf vera svolítið undarlegt og alveg sérstaklega vegna þess að þar var inni þessi sjóður sem enginn átti, þessi sjálfseignarstofnun. Þegar til stóð að hlutafélagavæða SPRON átti sjálfseignarstofnunin 89% af hlutafénu. Þá fer maður að spyrja sig: Hver stjórnaði sjálfseignarstofnuninni, því að hún réð eiginlega öllu? Stofnfjáreigendurnir sem voru eitthvað um eitt þúsund talsins áttu eingöngu að eignast 11%. Það hlutafé hefði orðið gjörsamlega verðlaust ef þessi áætlun hefði gengið eftir.

Ég átti þátt í að stöðva þær áætlanir og láta alla vega þá sem vildu eignast SPRON borga fyrir það. En þungamiðjan var þessi sjóður sem enginn átti. Hver stýrði honum? Fyrir hlutafjárvæðinguna var búið að skipa stjórn í hann til fjögurra ára þannig að það lá alveg fyrir hver ætlaði sér að stjórna og stýra sjóðnum og verður örugglega skemmtilegt að skrifa eitthvað um það einhvern tíma. Síðan þróuðust málin þannig að gerður var samningur við Kaupþing. Kaupþing ætlaði að kaupa SPRON og kaupa út sjálfseignarstofnunina með reiðufé. Sjálfseignarstofnunin átti þá að breytast í sjóð sem átti að úthluta fé til menningar- og líknarmála í Reykjavík. Hann hefði eflaust gert gott gagn og voru ætlaðir sex milljarðar í það en Alþingi stoppaði það á einum degi. Ég greiddi að sjálfsögðu atkvæði gegn því af því að þetta var samningur sem ég hafði gert. Alþingi eyðilagði sem sagt þennan einkasamning sem ég ásamt öðrum í stjórn SPRON höfðum gert við Kaupþing. Það er dálítið merkilegt að Alþingi skuli hafa gripið inn í einkasamninga.

Það var ákveðið að láta þennan sjóð heyra undir ríki og bæ, þ.e. að fulltrúar menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og einhverra sveitarfélaga kæmu inn í það. Þar með var ekki lengur hægt að stýra SPRON í gegnum þennan sjóð sem enginn átti og þá datt sá áhugi niður. Hvað gerðu menn þá? Þá reyndu menn að auka stofnféð við hliðina á þessum sjóði sem enginn átti þannig að hlutur hans minnkaði og menn gáfu út alveg óhemjuháar upphæðir í stofnfé og lánuðu fyrir því annaðhvort beint eða óbeint. Það er vandi sem mjög margir glíma við í dag og er óbein afleiðing af lagasetningu Alþingis og ég hef ekki heyrt umræðu um þær hörmungar. Venjulegt fólk tók jafnvel 50 millj. kr. lán til að kaupa stofnfé. Nú er stofnféð hugsanlega orðið verðlaust eða verðlítið og eftir situr lánið sem venjulegt fólk þarf að borga, sumt jafnvel um 100 milljónir. Þetta er mikill vandi og var hluti af því að auka stofnfé fyrir utan þennan sjóð sem enginn átti þannig að vægi hans minnkaði og síðan átti að hluthafavæða hann. Mér finnst að menn þurfi að ræða hvað þeir ætla að gera við þetta fólk? Hvað ætla þeir að gera við þessar skuldir? Ég hef ekki fylgst mjög mikið með því en ég hef séð upplýsingar þar sem um mjög stórar upphæðir er að ræða.

Síðan kemur hrunið og þá verður stofnféð verðlaust hjá sumum sparisjóðunum, verðlítið hjá öðrum en lánið stendur eftir og þessi mikli vandi myndast. Mér finnst að Alþingi þurfi að ræða þennan vanda, sérstaklega af því að það á kannski óbeint upptökin að honum. Því miður létu menn SPRON fara á hausinn eða reksturinn hverfa. Auðvitað gat SPRON farið á hausinn og hluthafarnir — þetta var hlutafjárbanki — gátu tapað sínu hlutafé en því miður var reksturinn látinn fara á hausinn vegna þess að hann í sjálfu sér var mjög verðmætur. SPRON naut mjög mikillar virðingar hjá Reykvíkingum og á öllu landinu og starfsmennirnir höfðu sinnt nærþjónustu sem var mjög mikils metin. Mér þótti það virkilega dapurlegt þegar ríkisstjórnin tók það skref að láta SPRON fara á hausinn í staðinn fyrir að breyta kröfunum í hlutafé eða leysa málið með öðrum hætti því að ég held að þessi rekstur hafi verið mjög verðmætur. Sama má segja um Sparisjóðabankann. Þar áttu menn að láta hlutaféð verða að engu en mjög mikilvægt var að bjarga Sparisjóðabankanum vegna þess að það var eina hreina kennitalan sem Íslendingar áttu gagnvart útlöndum. Nýju bankarnir hafa ekki hreina kennitölu. Það eru nýstofnaðir bankar og þeir þurfa að afla sér trausts en Sparisjóðabankinn átti mjög langa sögu samskipta við erlend lánafyrirtæki og það var verðmæti sem menn eyðilögðu með einu pennastriki. Mér finnst það mjög miður og virkilega slæmt að menn skuli hafa tekið þá ákvörðun að láta Sparisjóðabankann eða Icebank fara á hausinn. Það hefði margborgað sig fyrir þjóðina að breyta kröfum í hlutafé eða einhvern veginn að leysa það mál, enda stóð það til, skilst mér, ef lánardrottnar hefðu fengið meiri tíma eins og búið var að lofa þeim.

Það frumvarp sem við hér ræðum er verulega mikil breyting frá því sem Alþingi hefur ákveðið hingað til og ég reyndar var á móti þannig að ég ætti að gleðjast yfir þessu frumvarpi en ég gleðst samt sem áður ekki yfir því. Hér er horfið frá hlutafélagavæðingunni, sem ég var alla tíð á móti þannig að ég get glaðst yfir því. Verið er að lækka stofnfé og í sjálfu sér get ég glaðst yfir því líka eða fallist á að þegar menn eru búnir að keyra fyrirtæki í þrot, hvort sem það er hlutafélag eða sparisjóður, eiga eigendurnir með einhverjum hætti að mæta því þroti. Hins vegar er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að stofnfé er meira en hlutafé. Það er líka ákveðin hugsjón á bak við það og sérstaklega þegar ekki er um að ræða hlutafélagabanka er hlutaféð að einhverju leyti eins og sparifé. Þess vegna er ekki alveg eðlilegt að láta það falla niður í ekki neitt en eins og með hlutafé er mjög mikilvægt að eigendurnir eigi möguleika þar og það er það sem menn þurfa að huga að í öllum þeim uppskiptum sem eru að verða núna. Eigendurnir þurfa að eiga möguleika á því að geta keypt eign sína til baka vegna þess að annars fara lykilverðmæti forgörðum. Ég hef farið í gegnum það áður að tengsl við erlenda birgja og annað slíkt fara forgörðum, þekking á rekstrinum fer forgörðum, þekking starfsmanna á rekstrinum fer forgörðum. Mjög margt fer forgörðum, tengsl starfsmanna við eigendur, tengsl starfsmanna við viðskiptavini og traust. Það fer allt forgörðum ef menn gefa ekki eigendunum möguleika á að kaupa eign sína til baka á löngum tíma, segjum 10, 15 árum. Það er eitthvað sem þarf að vinna að og þyrfti að vinna að því hérna líka en ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Það er það sem mér finnst vera slæmt við þetta frumvarp, mjög slæmt.

Það sem er alveg sérstaklega slæmt, frú forseti, er það sem margir hv. þingmenn hafa velt upp hér: Hvað svo? Hvað er ríkissparisjóður eiginlega? Sparisjóður er stofnaður til að sinna nærþjónustu, eins og ég hef farið í gegnum hér. Hugmyndin er sú að sparisjóðurinn sinni sínum dal eða sínu sveitarfélagi, ég kalla það heiðardalinn. Getur ríkissparisjóður gert það? Ég held nú ekki. Verður þetta einn ríkissparisjóður eða verða þeir margir? Hvers lags fyrirbæri eru það og hver skipar stjórn? Er það einhver embættismaður úr Reykjavík? (Gripið fram í: Bankaumsýslan.) Bankaumsýslan? Á hún að vera að stýra sparisjóðum úti um allt land? (Gripið fram í: Já.)

Menn hefðu þurft að gefa sér miklu meiri tíma, frú forseti, til að ræða þetta í nefndinni. Ég er ekki í hv. viðskiptanefnd þannig að ég hefði ekki getað tekið þátt í þeirri umræðu en það vantar alveg að segja hvað gerist svo. Svo má segja að eins og í mörgum öðrum mjög veigamiklum frumvörpum er allt of mikill hraði á hér. Menn ræða ekki hlutina í hörgul og finna góða lausn. Ég spái því að ekki líði langur tími þangað til þetta frumvarp kemur hingað aftur inn, eins og mörg önnur sem við erum að afgreiða núna, til þess að koma með leiðréttingar, til að koma með það sem menn sáu ekki, til þess að leysa einhvern vanda sem menn bjuggu til þegar þeir voru að leysa þennan vanda, þeir bjuggu bara til annan vanda. Ég er dálítið dapur yfir því hvernig menn eru að afgreiða þetta.