137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt enn að spyrja: Hvar var hv. þingmaður þegar neyðarlögin voru sett þar sem í 2. gr. var sett inn ákvæði um það að ríkissjóður gæti komið inn í sparisjóðina, bæði stofnfjársparisjóðina og hlutafélagasparisjóðina, til að bjarga þeim og setja inn peninga í kjölfar hrunsins? Það er ekki að heyra að hv. þingmaður hafi tekið þátt í þeirri afgreiðslu þegar hann talar núna um að það sé ríkisvæðing að setja fé inn í sparisjóðina. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, ég óska eftir því að fá að tala óáreitt í andsvari. Í andsvari hefur maður mjög stuttan tíma, það ætti hv. þingmanni að vera orðið ljóst.

Ég vil ítreka þá skoðun mína að það er mikill misskilningur að þetta frumvarp sé atlaga að sparisjóðum eða að fólkinu úti um land. Það er verið að skapa hér grundvöll fyrir því að ríkissjóður geti í krafti 2. gr. neyðarlaganna komið til aðstoðar í þeim sparisjóðum sem þess óska. Það er ekki verið að taka sjálfsforræðið af stofnfjáreigendum vegna þess að það er skýrt kveðið á um það í þessu frumvarpi að það eru þeir sem verða að óska eftir atbeina ríkisins og það eru þeir sem verða að samþykkja niðurfærslu og endurskipulagningu og aðkomu nýrra stofnfjáreigenda ef til kemur.

Sparisjóðirnir hafa átt í miklum erfiðleikum og það eru í rauninni tveir valkostir uppi í dag. Þeir standast ekki kröfur um eiginfjárhlutfall. Annaðhvort getur ríkið komið á grunni þessa frumvarps til hjálpar í sparisjóðunum ellegar Fjármálaeftirlitið hlýtur að taka af þeim starfsleyfið. Ég vel fyrri kostinn.