137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri það og skynja að sparisjóðir landsins eru hv. þm. Álfheiði Ingadóttur mikið hjartans mál og ég fagna því að sjálfsögðu heiftarlega því að þar fara áherslur okkar saman og það er hið besta mál. En eins og svo oft áður greinir okkur á um leiðir að settu markmiði. Hv. þingmaður spyr hvar sá sem hér stendur hafi verið staddur þegar neyðarlögin voru sett. Ég sat í þessum sal, mig minnir að ég hafi setið aðeins út á þessum væng þegar neyðarlögin voru sett og tek fyrir mitt leyti fullan þátt í þeirri gjörð sem þá var.

En spyrja má á móti hvers vegna menn bæta í þá lagagjörð sem þá var staðfest, svo umdeild sem hún var. Ég hef skynjað það sem svo í viðræðum við það fólk sem situr fyrir stjórnmálahreyfingu mína í viðkomandi nefnd að menn bæti fremur í þau íþyngjandi ákvæði sem ég átti þátt í, ásamt öðrum á hinu háa Alþingi, að setja og kölluð eru neyðarlög. Því miður virðist það vera svo.

Ég saknaði þess hins vegar í andsvarinu að fá ekki svar hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur áðan við þessari grunnspurningu sem lýtur að hugmyndafræðinni á milli þeirra stjórnmálahreyfinga sem við tilheyrum. Ég nefndi ýmislegt í andsvari mínu sem laut að eignarréttinum til þess að menn gætu íhugað það. Ég saknaði þess að heyra ekki nánari útlistanir á því hvort þær hugmyndir sem þá voru kynntar af hv. þingmanni fyrir nokkru síðan væru liður í því verki sem hér er verið að prjóna saman fyrir okkur.