137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kýs að svara spurningum hv. þingmanns um heildarendurskoðun í ræðu minni á eftir en nota þennan tíma til að veita andsvar við ræðu hans.

Nú er hv. þingmaður mjög lögfróður maður og átti ríkan þátt í setningu neyðarlaganna síðastliðið haust sem þáverandi hv. formaður allsherjarnefndar, ef ég veit rétt. Mér leikur því hugur á að vita hver túlkun hans er á 2. gr. þar sem er heimild til handa ríkissjóði til að setja fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé sparisjóðanna inn í sjóðina. Í þeirri grein er tekið fram að þetta stofnfé skuli njóta sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutar í viðkomandi sjóði. Jafnframt segir þar, með leyfi forseta:

„Ákvæði þetta“ — þ.e. um að hið nýja hlutafé nemi sama hlutfalli — „tekur jöfnum höndum til stofnfjársparisjóða og þeirra sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara eftir því sem við á.“

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig er hægt að uppfylla 2. gr. neyðarlaganna án þess að færa niður stofnfé ef eigið fé sjóðsins er neikvætt?