137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega vitað að það er grunnurinn að því að 7. gr. er í þessu frumvarpi að það voru ekki taldar nægar heimildir samkvæmt neyðarlögunum. Það er því ekki óeðlilegt að leitað sé leiða með einhverjum hætti hvernig eigi að útfæra þetta. Það sem við höfum áhyggjur af og hefur náttúrlega margítrekað komið fram er hvernig útfærslan er. Við þá útfærslu þarf auðvitað að gæta þeirra grundvallarsjónarmiða sem ég tel að eigi að vera við lýði þegar við hugum að framtíðarfyrirkomulagi sparisjóðanna, að það sé ekki skorið á tengslin við grasrótina, að það sé ekki skorið á tengslin við stofnfjáreigendur.

Ég tel að hv. viðskiptanefnd þurfi að skoða þessi mál betur og tek þar af leiðandi undir þau sjónarmið fulltrúa míns flokks í hv. viðskiptanefnd að það þyrfti að skoða þetta betur til að finna slíka lausn. Ég vek athygli á því að það er í sjálfu sér ekki ágreiningur um það að ríkið komi með fjármagn í sparisjóðina og það verði tekið tillit til ríkisins í því sambandi en spurningin er sú hvernig við útfærum þetta þannig að ekki sé með einhverjum hætti klippt á tengslin sem tengja sparisjóðina við grasrót sína.