137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál um stöðu sparisjóðanna í landinu. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa vakið máls á því að þetta hugsanlega falli í skuggann af öðrum stærri málum. Þetta mál fjallar að mínu viti um framtíð sparisjóðakerfisins í landinu. Það fjallar um þær grunnstoðir og þær grunnforsendur sem það er byggt á í hverju sveitarfélagi fyrir sig og hverju héraði fyrir sig. Þetta fjallar fyrst og fremst um það. Ég sé engan tilgang með því að búa til einhvern ríkissparisjóð. Ég held að við getum alveg eins lagt niður sparisjóðina og sett þá bara útibúin inn í viðkomandi ríkisbanka hvort heldur það er Landsbanki, Búnaðarbanki eða Íslandsbanki. Þetta fjallar fyrst og fremst um það.

Allir sem búa á landsbyggðinni gera sér grein fyrir mikilvægi sparisjóðanna í hverju byggðarlagi og héraði, hversu mikilvægu hlutverki þeir gegna þar. Þeir gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki samfélagslega og byggðarlega fyrir landsbyggðina. Það finnast mýmörg dæmi um það í gegnum áratugina þar sem einstaklingar hafa verið að hefja atvinnurekstur en hafa ekki fengið áheyrn eða haft tiltrú hjá fyrrverandi ríkisbönkum og síðan eftir að þeir voru einkavæddir, hafa ekki fengið hljómgrunn og fyrirgreiðslu fyrir áform sín. Þannig hefur það verið í gegnum áratugina. Ég ítreka það. Það sjá allir. Upp úr þessum hugmyndum hafa oft risið mörg stór og öflug fyrirtæki sem hafa borið uppi byggðarlögin áratugum saman. En þeir hafa hins vegar ekki fengið áheyrn hjá hinum bönkunum því að þetta hefur verið of lítilmannlegt fyrir þá. Mér finnst þetta mál fjalla fyrst og fremst um það. Viljum við viðhalda þeirri hugsjón sem sparisjóðakerfið hefur byggst á í gegnum áratugina?

Það sem mér finnst við þetta er að við hefðum átt, eins og við höfum lagt til og okkar fólk í hv. viðskiptanefnd, þ.e. að menn hefðu átt að fara inn í björgunarþáttinn og síðan að bíða örlítið með nánari útfærslu því að við vitum ekki hvernig þetta mál muni þróast og við þurfum að gefa okkur meiri tíma. Þetta frumvarp mun hugsanlega — ég ætla ekki að fullyrða það — hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Heilu byggðarlögin eru, heilu héruðin eru í sárum og eiga mikið undir þessu máli og ekki síst í mínu kjördæmi þar sem heilu héruðin eiga mikið undir.

Ég tek heilshugar undir með þeim þingmönnum sem hafa bent á að mjög æskilegt væri að gera sér grein fyrir því á hinu háa Alþingi, frú forseti, hvaða áhrif þetta mundi geta hugsanlega haft á uppbyggingu á heilu landsvæðunum og afdrif þeirra vegna þess að mjög mikið er undir fyrir fleiri tugi og hundruð fjölskyldna sem þar búa og þar fram eftir götunum. Ég tel því æskilegra að við hefðum tekið fyrri hlutann en beðið með seinni hlutann. Ég ætla hins vegar engum hv. þingmanni það að hafa einhverja aðra hvata að baki en að vilja gera vel. Ég ætla engum það. Hins vegar hef ég upplifað á þeim stutta tíma sem ég hef setið hér á þingi að það hefði oft mátt gefa sér betri tíma. Ég verð að segja það alveg eins og er. Við erum að taka hér mjög stórar ákvarðanir eins og ég sagði sem falla hugsanlega í skuggann af því sem allt snýst um í dag, þ.e. Icesave og Evrópusambandið.

Af því ég nefni nú Icesave í þessu samhengi finnst mér varðandi þetta mál, það sem menn eru að tala um þarna, mjög sérkennilegt að menn vilji ekki skoða það nánar. Þar er fólk tilbúið til að taka á sig hugsanlega 700 milljarða skuldbindingar á þjóðina án þess að það liggi fyrir því lagaleg skylda eða fullvissa um það. Það liggur alveg fyrir að fólk er tilbúið til að taka það hér, margt hvert. Ég velti því fyrir mér í samhengi við þetta hvort ekki væri rétt að draga andann og reyna að gera sér grein fyrir því betur hvaða afleiðingar þetta muni hafa. Mér er fullkunnugt um það eftir að hafa átt fund með sveitarstjórnarmönnum og heilu bæjarstjórnunum að þetta mun hafa gríðarleg áhrif í mörgum héruðum landsins og gæti hugsanlega raskað þar búsetu og öðru, svo að því sé hér haldið til haga.

Það sem menn hafa fyrst og fremst verið að pexa hér um er hvort hægt sé að fara með stofnféð niður í einn og hugsanlega stoppa þar. Um það kannski snýst þessi 7. grein, hvort menn geti farið með stofnféð niður í einn eins og var alltaf hugmyndin á bak við stofnféð á sínum tíma þegar það var gert fyrir allt að 100 árum. Þá var þetta hugsunin. Mjög margir einstaklingar líta á stofnfé og hafa litið á það þannig og gert það með þeim hætti að þeir hafa tekið úr innlánsbókunum og lagt það inn sem stofnfé því að hugmyndafræðin hjá einstaklingunum sem búa úti á landsbyggðinni í þessum héruðum — sveitarfélög, við vitum um mörg sveitarfélög eiga mikið stofnfé. Hver er hugmyndafræðin hjá þessu fólki? Hún er sú að verja byggðina sína, verja héraðið, taka þátt í að byggja upp atvinnulífið á sínu heimasvæði. Með því að gera þetta eru menn ekki að verja þá sem voru í þessari græðgisvæðingu að kaupa þetta á uppsprengdu verði. Það eru þeir sem eru þá kúttaðir af. Ég segi fyrir mína parta að við þurfum að hugsa þetta mjög vandlega.

Mig langar líka að segja frá því, frú forseti, að mér hafa borist mjög áhugaverðar hugmyndir frá manni sem heitir Jón Óskar Pétursson og er stofnfjáreigandi í sparisjóðnum í Keflavík. Ég ætla að fá að lesa þær hér, með leyfi forseti, því að þetta er að sumu leyti sambærilegt við það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson viðraði hér í umræðunni í dag. Þar kemur fram hugmynd um deildaskiptan stofnsjóð, um að gerður verði mikill greinarmunur á stofnfjárframlagi ríkisins og núverandi stofnfé með þeim hætti að stofnuð verði sérstök deild um nýtt stofnfé. Um þessa deild gildi rýmri heimildir um viðskipti með stofnfé sem ætti að gera það að verkum að ríkið hefði meiri möguleika en ella að losa um sína stöðu í stofnfé, nyti arðgreiðslna til jafns við aðra og svo framvegis. Hin deildin innihéldi núverandi stofnfé. Um hana giltu aðrar reglur er snúa mundu meðal annars að takmörkunum á viðskiptum með stofnfjárhluta í til að mynda fimm ár. Stofnfé þeirrar deildar yrði áfram í núverandi nafnverði. Þeirri deild mætti svo skipta í fleiri deildir þar sem aðgreindir væru stofnfjáreigendur úr hópi sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Með því móti væri hægt að einangra og fást við skuldavanda stofnfjáreigenda markvisst á þann hátt að arðgreiðslur til skuldugra stofnfjáreigenda færu í að greiða lánin niður en arðgreiðslur til opinberra aðila og þeirra sem ekki væru skuldugir færu í að byggja sjóðinn upp. Þannig færu saman hagsmunir stofnfjáreigenda og sjóðsins á þann hátt að fleiri gætu staðið í skilum við lán til stofnfjárkaupa sem leiða mundi til hraðari uppbyggingar sjóðanna.

Víkjandi lán er ein hugmynd sem hann setur hér fram, þ.e. að ríkissjóður, væntanlega í gegnum Seðlabankann, veiti sparisjóðunum víkjandi lán sem nemur sömu upphæð og umsókn þeirra um stofnfjárframlag í stað þess að leggja þeim til nýtt stofnfé. Víkjandi lán hefur jákvæð áhrif á CAD-hlutfall sparisjóðanna og gerir því í raun sama gagn og stofnfjáraukning. Víkjandi lán stendur framar stofnfé komi til gjaldþrots sparisjóðs og því má segja að áhætta ríkisins væri minni en að leggja þeim til aukið stofnfé. Lánið gæti til dæmis verið til fimm ára og þá mætti endurmeta stöðuna í ljósi árangurs af endurreisn sjóðsins. Ríkið gæti sett ströng skilyrði um stjórnun og rekstur sjóðsins meðal annars með því að gera kröfu um meiri hluta í stjórn sjóðsins á meðan á lánstíma stæði. Stofnfé yrði ekki fært niður og hagur stofnfjáreigenda af því að byggja upp sjóðinn færi algjörlega saman við hagsmuni ríkisins af því að fá lánið endurgreitt vegna möguleika á gjaldfellingu lánsins og þar með umbreytingu í stofnfé. Vegna umræðu um lánveitingar af þessu tagi verður ekki undan vikist að nefna það fordæmi sem ríkið hefur í raun gefið með lánveitingu til tveggja smærri fjármálafyrirtækja nú nýlega á afar hagstæðum kjörum.

Það sem vakir fyrir öllum þeim sem hafa áhyggjur af afdrifum sparisjóðanna er þessi tenging heim í hérað. Það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á því hvaða afleiðingar þetta muni hafa. Ég verð að segja það, frú forseti, að í ljósi þess hvernig okkur hefur gengið að byggja upp ríkisbankana þá hugsa ég til þess með hryllingi að við stofnum hér ríkissparisjóð Íslands því að við erum í raun ekki að gera neitt annað. Ég hræðist mjög líka uppbyggingu úti á landsbyggðinni í framtíðinni. Eins og ég hef sagt hér áður hafa sparisjóðirnir verið þeir aðilar sem hafa hjálpað þar við að byggja upp atvinnulífið og staðið með atvinnulífinu þegar aðrir hafa ekki viljað gera það, og ekki síst með einstaklingum sem vilja fara út í atvinnurekstur og byggja hér upp atvinnu og störf fyrir fólkið í landinu.

Frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt að menn hlúi einmitt að því við þessar aðstæður sem við erum í núna að hér geti kraftmiklir og öflugir einstaklingar tekið þátt í að byggja upp atvinnulífið.

Ég get hins vegar ekki lokið máli mínu öðruvísi en að nefna það hér að hv. formaður viðskiptanefndar, Álfheiður Ingadóttir, hefur staðið hér ein í stafni og tekið þátt í umræðunni og eins hefur hv. varaformaður Magnús Orri Schram hlustað hér á með athygli. Það ber að þakka. Ég hins vegar sakna þeirra manna sem hafa oft haft mörg stór orð hér í þessum stól. Loksins þegar þeir geta bjargað sparisjóðunum þá hlaupa þeir til fjalla.