137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og taka sérstaklega undir síðasta hluta ræðunnar þar sem hann fjallaði um mikilvægi sparisjóðanna og það hvernig þeir hafa í gegnum tíðina og upp undir 100 ár — ég segi nú kannski ekki að þeir hafi þá gegnt akkúrat sama hlutverki — en þeir hafa í gegnum tíðina einmitt verið að fjármagna framkvæmdir og einstaklinga og félög heima í héraði sem stóru bankarnir hafa ekki haft minnsta áhuga á. Það er mjög mikilvægt hlutverk og að því ber að hlúa. Það þarf að tryggja að þeir verði áfram til staðar þess vegna.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann, af því að hann sagði í ræðu sinni, fyrri partinum, að hann teldi nóg að snúa sér að því í þessu frumvarpi sem snýr að björgunarþættinum. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Hvað er það nákvæmlega í þessu frumvarpi sem hann telur að sé að sinna björgunarþættinum?

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hv. þingmann hvernig hann túlki 63. gr. laga um fjármálafyrirtæki. — Það fer nú fram konferens hér í salnum. — Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann líka að því hvernig hann túlki 63. gr. laga um fjármálafyrirtæki þar sem segir að stofnfjáreigendur beri ekki ábyrgð á öðrum skuldbindingum sparisjóðsins en stofnfé sínu. Þýðir þetta lagaákvæði í huga hv. þingmanns að stofnfjáreigendur beri ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðsins með stofnfé sínu eða ekki?