137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns: Hvað er það í þessu frumvarpi sem hann telur sýna björgunarþáttinn? Hvað er það sem hægt er að taka á í þessu frumvarpi sem varðar björgunarþáttinn, ef ekki alla þá þætti sem þarna eru taldir? Hvað grein er það? Hvaða atriði er það?

Það atriði sem hefur verið mest um deilt í þessu frumvarpi er einmitt 7. gr., og nú er 9. gr., sem fjallar um heimild til niðurfærslu stofnfjár. Það er sú grein sem hv. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í öðru orðinu tala um sem leið til björgunar en í hinu orðinu telja alveg ónauðsynlega og stórhættulega. Ég kalla því eftir því hjá hv. þingmanni hvað hægt sé að gera og lýtur bara að björgunarþættinum í þessu frumvarpi en að sleppa einhverju öðru.

Ég hlýt að nefna það fyrst ég er komin í þennan stól að hér er verið í rauninni að feta braut sem var lagt var út á síðastliðið haust með neyðarlögunum. Þann 6. október síðastliðinn lagði þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með stuðningi allra þingmanna út á þá braut að ríkissjóði væri heimilað að leggja fé inn í sparisjóðina til þess að bjarga þeim, til þess að aðstoða þá eftir hrunið. Hvers vegna skyldi það ekki hafa verið gert enn þá? Það er vegna þess að talið hefur verið skorta á lagaheimildir til þess að uppfylla ákvæði 2. gr. neyðarlaganna. Það er það sem við erum að gera hér. Við erum að (EKG: Þetta er rangt.) virkja 2. gr. (EKG: Þetta er rangt.) neyðarlaganna til þess (Gripið fram í.) að það sé hægt (EKG: Þetta er rangt.) fyrir ríkissjóð að koma með fjármagn inn.

Fyrst hv. þingmenn kalla svona fram í að það sé ekki hægt þá spyr ég: Hvað kom í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn gerði það fram til 1. febrúar síðastliðinn ef það var hægt?