137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði nú ekki að eiga orðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem hefur verið frekar spök í dag en eitthvað koma þessi frammíköll við hana enda var hún svo sem ekki vön að stunda þau þegar hún var ekki í ríkisstjórninni, en hvað um það.

Í umræðunni um 7. gr., um niðurfærslu stofnfjár, var bent á að ástandið er ekki mjög gott, það vitum við öll sem erum hér inni. Ef menn líta á stöðuna eins og hún er í dag og gefa ekkert svigrúm gagnvart stofnfénu — nú eru menn að meta inn í sparisjóðina, það kom t.d. fram í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, og gera það með mjög breytilegum hætti. Þá veltir maður fyrir sér hvert það leiðir: Fara menn of neðarlega? Ég veit það ekki, ég ætla ekki að fullyrða að svo sé, en mér finnst það bara svo mikils virði ef hægt er að varðveita þann grunn sem sparisjóðakerfið er byggt á, um það snýst málið fyrst og fremst fyrir mér.

Ég hef engan áhuga á því að verja einhver eignarhaldsfélög sem í græðgi sinni fóru í þetta allt saman og það er mjög dapurlegt hvernig það gerðist. Það er það viðfangsefni sem við erum með í fanginu alla daga: Nokkrir tugir einstaklinga rændu landið nánast. Það er viðfangsefnið, við erum alveg sammála um það, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir.

Þetta er það mikið mál og það eru svo miklir hagsmunir í húfi fyrir heilu héruðin og heilu byggðirnar að við þurfum að draga andann og komast aðeins út úr pólitísku argaþrasi. Þetta snýr fyrst og fremst að því að verja grunnstoðir og hugmyndafræðiuppbyggingu sparisjóðakerfisins.