137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef setið spakur í þingsal í dag og fylgst með þessari umræðu sem fer fram við 3. umr. þessa máls.

Ég flutti hér fyrir viku eða tíu dögum síðan 20 mínútna ræðu þar sem ég fór yfir þetta algjörlega frá a til ö. Það hefur í sjálfu sér ekkert nýtt komið fram við þessa umræðu í dag sem fær mig til þess að flytja þá ræðu aftur eða endurtaka það sem ég sagði þá vegna þess að þar fór ég yfir þetta allt saman. Þar á meðal tengslin við neyðarlögin, um að allar breytingarnar sem við leggjum til séu nauðsynlegar, að við ætlum okkur út úr sparisjóðakerfinu, við ætlum okkur ekki að ríkisvæða það til lengri tíma. Við erum að gera það sama við sparisjóðakerfið eins og við bankakerfið, við erum að endurreisa það til þess að geta komið okkur út úr því og þá í gegnum Bankasýsluna.

Við fórum í gegnum þessi álitaefni sem snerta áðurnefnt gólf og lýtur t.d. að þeim hugmyndum sem hv. þingmaður fór í gegnum áðan hvað varðar deildaskiptingu og víkjandi lán, sem ég ætla kannski að fá að koma að í öðru andsvari hér á eftir. En það er alveg sama hvernig við lítum á þessa gólfhugmynd, útfærslan á niðurskrift stofnfjár í frumvarpinu er til að laga stofnfjáraukninguna að almennum jafnræðisreglum og við getum ekki horft fram hjá þeim því að annars væri framlag okkar í andstöðu við stjórnarskrána. Við getum ekki, því miður, eins mikið og við þó vildum, gætt að stofnfjáreigendum úti um allt land, að byggðarlögunum, að þeim hagsmunum sem eru í húfi við framtíð sparisjóðakerfisins, við getum ekki horft fram hjá þessu. Það er forsenda þess, vilji einhver leggja sparisjóðunum til fjármuni, hvort sem það er ríkið eða aðrir stofnfjáreigendur, að búið sé að rétta af það samspil sem er á milli eiginfjár og stofnfjár, þ.e. að varasjóðirnir séu ekki neikvæðir. Ef við gerum það ekki kaupa nýir aðilar, hvort sem það eru ríkið eða aðrir stofnfjáreigendur — sveitarfélögin sjálf, nýja hluti á miklu yfirverði og fá þess vegna ekki hlutdeild í samræmi við framlag sitt.

Ég ætla í seinna andsvari að víkja að deildaskiptingu og víkjandi láni.