137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:22]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig ætlum við út? var lykilspurningin. Af því að við erum að ræða um hvort frumvarpið sé í heild nauðsynlegt, erum við t.d. að breyta lögunum þannig að hægt sé að kaupa stofnfé á raunvirði. En í dag er það fast sem þýðir að það er eftirmarkaðurinn sem græðir á viðskiptum með stofnfjárhluti. Ég vísa í það til þess að sýna fram á að frumvarpið í heild er liður í því hvernig við ætlum að koma sparisjóðunum til björgunar núna og hvernig við getum horft til þess að ríkið geti með tíð og tíma, þegar menn telja það rétt, farið út úr þessum rekstri aftur.

Deildaskiptingarhugmynd sem vísað var í í ræðu hv. þingmanns er því miður þess eðlis að hún mætir ekki þeim sjónarmiðum sem ríkið þarf að hafa við innkomu sína að sparisjóðunum, að færa eigið fé niður eins og það þarf að vera til þess að við gætum þess jafnræðis sem þarf að vera í aðkomu okkar. Hún deildaskiptir stofnfjáreigendum og er þess vegna ósanngjörn út frá þeim sjónarmiðum sem ég rakti í fyrra andsvari.

Heyrst hefur á vettvangi nefndarinnar að víkjandi lán til sparisjóðanna sé ein af þeim hugmyndum sem verða uppi á borðinu í björgunaraðgerðum hvers sparisjóðs. Þar horfa menn sérstaklega til þeirra skulda hjá sparisjóðunum sem stofnast hefur til vegna þátttöku þeirra í Icebank. Báðar þessar hugmyndir fengu umræðu í nefndinni. Í Bankasýslunni og því umbreytingarferli sem fram undan er í sparisjóðakerfinu höfum við sérstaklega í huga hluti eins og þá sem hv. þm. Guðlaugur Þór hefur minnst á, að hagnaður af eðlilegri starfsemi sé ekki nógu góður, og þess vegna þurfum við að horfa til sameiningar. Þess vegna er aðkoma ríkisins nauðsynleg, alveg eins og varðandi Bankasýsluna almennt, við stefnum að hagræðingu í fjármálastarfsemi okkar því að veruleikinn er allur annar eftir það skelfilega hrun sem átti sér stað síðasta haust.